Í byrjun mars voru birgðir á nýjum bílum í Bandaríkjunum svo miklar að þær hafa ekki verið meiri síðan árið 2009 og taldi 4.127.100 bíla. Það samsvarar birgðum til 78 daga. Í mars árið 2009 voru 101 daga birgðir á nýjum bílum sem stóðu í bílaumboðum í Bandaríkjunum, en þá var fjöldi bílanna minni, eða 2.900.600 en móti kemur að þá var eftirspurn eftir bílum miklu minni en nú og salan lítil, enda var sala á bílum árið 2009 einkar slök eftir efnahagshrunið 2008. 

Í júlí árið 2017 voru óseldir bílar hjá umboðunum 4.196.800 talsins en eftirspurnin mikil og salan eftir því, enda gott bílasöluár árið 2017. Birgðirnar hafa aukist um 93.000 bíla frá því fyrir ári síðan þegar til voru birgðir til 74 daga, en eru nú 111.600 bílum hærri en í byrjun febrúar í ár. Í ár stefnir í minni bílasölu í Bandaríkjunum en í fyrra og verður vel undir 17 milljón bílum ef spár genga eftir.