Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur fyrir hönd ríkisstjórnarinnar beðið fyrrverandi sakborninga í Guðmundar-og Geirfinnsmálinu, aðstandendur þeirra og annarra sem hafa átt um sárt að binda vegna málsins afsökunar á því ranglæti sem þeir hafi mátt þola. Þá fagnar ríkisstjórnin málalyktum í „einu umdeildasta sakamáli Íslandssögunnar.“

Dómur Hæstaréttar í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum, sem féll í gær, var ræddur á fundi ríkisstjórnarinnar í dag. 

Í tilkynningu sem birt var á vef Stjórnarráðsins rétt í þessu kemur jafnframt fram að ákveðið hafi verið að skipa starfshóp sem fái það hlutverk að leiða viðræður og sáttaumleitanir vegna þess miska og tjóns sem hluteigandi hafi orðið fyrir.

Yfirlýsing Katrínar Jakobsdóttir, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar í heild sinni: 

„Nýfallinn sýknudómur Hæstaréttar Íslands í málum allra dómfelldu í endurupptökumáli í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu var ræddur á fundi ríkisstjórnarinnar í dag. Ríkisstjórnin fagnar málalyktum í einu umdeildasta sakamáli Íslandssögunnar. Ég beini orðum mínum til fyrrum sakborninga, aðstandenda þeirra og annarra sem átt hafa um sárt að binda vegna málsins. Fyrir hönd ríkisstjórnarinnar bið ég ykkur afsökunar á því ranglæti sem þið hafið mátt þola.“

Fréttin hefur verið uppfærð.