Hvergerðingar gera nú enn eina tilraun til að fá sveitarstjórn Ölfuss til að gefa eftir land við mörk sveitarfélaganna. Eins og kunnugt er umlykur Ölfus Hveragerði á alla vegu og nær hluti byggðarinnar í Hveragerði inn fyrir mörk Ölfuss.

Í minnisblaði Aldísar Hafsteinsdóttur bæjarstjóra segir að þetta mál hafi ítrekað verið tekið upp við Ölfus sem í apríl 2019 hafi sagt að ekki væri mögulegt að verða við beiðninni miðað við fyrirliggjandi gögn og forsendur. Í júlí sama ár hafi þessi afstaða verið ítrekuð. „Mögulega gætu einhverjar breytingar hafa orðið á afstöðu Ölfusinga síðan fyrrgreind erindi voru send,“ skrifar Aldís.

Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði. Fréttablaðið/Eyþór

Spildan sem Hveragerði vill fá nær austur frá Varmá og að rótum Reykjafjalls. „Svæðið er afar mikilvægt fyrir Hveragerðisbæ vegna nálægðar þess við þéttbýlið en miðbær Hveragerðis stendur í raun á mörkum sveitarfélaganna,“ útskýrir bæjarstjórinn. „Er rétt að minna á að allir íbúar í götunni fyrir neðan Sundlaugina Laugaskarð hafa formlega óskað eftir því að fá að tilheyra Hveragerði enda sæki þeir alla þjónustu þangað.“

Bæjarráð samþykkti í gær tillögu Aldísar um að óska eftir viðræðum við Ölfus. „Einnig er lagt til að óskað verði eftir viðræðum um breytingu á sveitarfélagamörkum í gömlu Kömbunum þannig að lítil spilda sem þar er fái að tilheyra Hveragerðisbæ. Á þessu svæði er ein vinsælasta gönguleið Hvergerðinga, leiðin upp í Skífu. Hvergerðingum þætti vænt um að fá að sjá um þá gönguleið og að hún yrði innan bæjarmarka. Að óska eftir viðræðum um þessi mál er eðlileg leið í samskiptum milli sveitarfélaga og því er full ástæða til að ætla að vel verði tekið í erindið.“