Reynsluakstur – Nissan Leaf

Eftir fáum bílum hefur verið beðið með meiri eftirvæntingu og nýrri kynslóð Nissan Leaf, en nú er hún komin til landsins. Biðlistinn eftir nýjum Leaf eru orðinn ansi langur hér á landi, en um 200 kaupendur hafa skráð sig fyrir eintaki af bílnum og Nissan hefur í heild fengið yfir 50.000 pantanir. Áður en að þessari nýju kynslóð kom var Nissan Leaf þegar söluhæsti rafmagnsbíll í heimi og hafa meira en 300.000 eintök af honum verið seld. Víst má því telja að hann haldi þeim titli á næstu árum. En hver er ástæðan fyrir öllum þessum áhuga á þessum nýja Leaf? Fyrir það fyrsta er uppgefin drægni hans 378 km en það skal hafa í huga að er mælt við bestu hugsanlegu aðstæður en raunveruleg drægni bílsins er um 250 km. Það verður þó að teljast nokkuð gott og ætti að duga flestum við bæjarsnattið og það sem meira er, nú er komið svo þéttriðið net um Ísland af orkustöðvum ON að hægðarleikur er að aka á milli þeirra og fara hringinn um landið.

Orðinn fallegur og á góðu verði

Annað sem skiptir miklu máli er að nú er Nissan Leaf orðinn fallegur bíll, en forverar hans hafa einfaldlega ekki verið fagrir bílar og borið þess of mikið merki að vera rafmagnsbílar, en einhverra hluta vegna hafa of margir rafmagnsbílaframleiðendur haft þá einkennilegu þörf að teikna rafmagnsbíla sína þannig að þeir beinlínis segi það með útliti sínu að þar fari rafmagnsbílar og því þurfi þeir að vera fremur ljótir. Vonandi er þessu stigi í hönnun rafmagnsbíla lokið. Í þriðja lagi er nýr Nissan Leaf hlaðinn nýjustu tækni og bíllinn svo vel búinn að leita þarf uppí lúxusbílaflokk til að finna annað eins. Í fjórða lagi er bíllinn á mjög góði verði og þar fer kannski mikilverðasti þátturinn en fá má Leaf frá 3.690.000 kr. og fyrir vikið telst hann ekki dýr bíll í sínum stærðarflokki, hvað þá er litið er til búnaðarins. Einn kosturinn enn er þó óupptalinn, en það er hve ódýrt er að reka Leaf og reyndar alla rafmagnsbíla. Á Íslandi er rafmagn ódýrt og algengur 300.000 kr. eldsneytiskostnaður brunahreyfilbíls á ári verður að nokkrum tugum þúsunda á ári. Því má segja að svo til allur stofnkostnaður við kaup á Leaf sé uppétinn á 12 árum, svo fremi sem endingartíminn nái svo langt.

Úr letingja í sportbílaupptöku

Greinarritari var einn af þeim sem fékk að kynnast bílnum nokkru fyrir útkomu hans við frábærar aðstæður á Tenirife eyju Kanaríeyja. Þar sýndi hann sýna bestu kosti og reyndist frábær ferðafélagi. Akstur bílsins kom talsvert á óvart fyrir margt. Hann er með frábæra fjöðrun, frekar stífa og sportlega og fyrir þyngd rafhlaðanna finnst lítið. Samt eyðir hann ójöfnum með afar ljúfum hætti og hægt er að aka bílnum ansi greitt gegnum beygjurnar. Bíllinn er svo hljóðlátur að innan að furðum sætir og virðist hann mjög vel einangraður. Afar lítið veghljóð berst inní bílinn og vindgnauð lítið þó hratt sé farið. Ofan á það bætist að ekki heyrist í neinni brunavél svo úr verður einn hljóðlátasti akstur sem greinarritari hefur reynt. Snúningradíus stýrisins hefur verið minnkaður milli kynslóða og því er stýringin sportlegri og að auki er hún mjög nákvæm og tilfinning fyrir vegi því góð. Fyrir þá sem vilja fara hratt er gleðifréttir fólgnar í því að nú er Leaf aðeins 7,9 sekúndur í hundraðið, en forverinn var 11,5 sekúndur. Semsagt úr fremur miklum letingja í upptöku sportbíls.

80% hleðsla á 40 mínútum

Það telst líka til mikilla kosta að ávallt þegar Leaf er gefið inn er fullt afl til staðar og því sparkar hann vel sama á hvaða hraða honum er gefið hressilega inn. Þetta á alls ekki við flesta bíla með brunavél þar sem passa verður uppá það að bíllinn sé í rétta gírnum og á miklum snúningi og það dugar stundum ekki til ef nægt afl er ekki til staðar. Því er ekki að heilsa á þessum bíl. Margir halda jú að rafmagnsbílar séu ekki kraftmiklir bílar. Þeir hinir sömu eiga bara eftir að prófa þennan bíl. Þetta má reyndar líka finna við akstur Tesla bíla þar sem aflið er líka enn meira, en þeir kosta bara svo mikið. Skemmtileg nýjung í nýjum Leaf er fólgin í e-Pedal gjöfinni en með henni er ekki nokkur ástæða til að nota bremsurnar í 90% af akstri bílsins. Þá má aka bílnum í Eco-Mode ef spara skal rafhleðsluna og þá nær bíllinn nær uppgefinni drægni. Innanrými Leaf er nú orðið miklu flottara þó svo þar megi ennþá finna harða plastfleti, en lúkkið er í heildina til fyrirmyndar. Upplýsingaskjárinn er ekki tiltökulega stór, eða 7 tommur og sjá má flottari slíka skjái í mörgum nýjum bílum, en hann virkar vel. Einn af fáum öðrum ókostum er fólginn í því að ekki er hægt að draga stýrið nær sér, en samt var ekki erfitt að finna ágæta akstursstöðu. Skottrýmið er óvenju gott fyrir rafmagnsbíl að vera, eða 435 lítrar og hefur stækkað talsvert. Að fullhlaða rafhlöðurnar tekur 7,5 klst með venjulegri 7 kW hleðslustöð, en ef mikið liggur við má ná upp 80% hleðslu á aðeins 40 mínútum með hraðhleðslustöð. Víst má telja að kaupendur Leaf á Íslandi verði gott betur enn 200, því hér fer einkar eigulegur bíll í takti við tímann.

Kostir: Ytra útlit, afl, aksturseiginleikar, innanrými, verð

Ókostir: Lítill upplýsingaskjár, vantar aðdrátt á stýri

40 kWh rafhlöður, 150 hestöfl 

 Framhjóladrif 

 Eyðsla: 0,0 l./100 km í bl. akstri 

 Mengun: 0 g/km CO2 

 Hröðun: 7,9 sek. í 100 km hraða 

 Hámarkshraði: 143 km/klst 

 Verð frá: 3.690.000 kr. 

 Umboð: BL