Páll Valdimarsson formaður Bifreiðastjórafélagsins Frama segir félagsmönnum lítast hroðalega á þær breytingar sem boðaðar eru í drögum að frumvarpi Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins til nýrra laga um leigubifreiðar. Drögin eru nú til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda.

Boða miklar breytingar

Í drögunum segir að frumvarpinu sé ætlað að koma í stað núgildandi laga um leigubifreiðar sem eru frá árinu 2001. Markmið þess sé að auka frelsi á leigubifreiðamarkaði auk þess að tryggja að íslenska ríkið standi við alþjóðlegar skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Tilefni frumvarpsins samkvæmt drögunum er að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) gaf nýverið út rökstutt álit varðandi leigubifreiðalöggjöf í Noregi en löggjöfinni þar í landi svipar um margt til þeirrar íslensku. Í álitinu komst ESA að þeirri niðurstöðu að norska ríkið bryti gegn skyldum sínum samkvæmt EES-samningnum með því að vera með fyrir fram ákveðinn fjölda atvinnuleyfa sem fæli í sér ólöglega takmörkun. Sami háttur er á takmörkun fjölda atvinnuleyfa til leigubifreiðaaksturs hérlendis.

Meðal breytinga sem lagðar eru til í drögum frumvarpsins eru afnám takmörkunarsvæða og fjöldatakmarkana atvinnuleyfa, afnám skyldu leigubifreiða til að hafa afgreiðslu á leigubifreiðastöð og breytigar á kröfum til þeirra sem hyggjast starfa sem leigubifreiðastjórar.

Muni hafa mjög skaðleg áhrif

„Þetta hefur nú verið þannig að það er takmörkun á leigubílum og í rauninni eru allt of margir leigubílar hér nú þegar,“ segir Páll í samtali við Fréttablaðið. „Þannig ef þetta verður allt saman gefið frjálst að þá er leiðin greið fyrir einhverja fleiri hundruð menn í viðbót sem vilja prufa þetta og það mun bara fara illa fyrir alla.“

„Reynslan hefur verið þannig erlendis frá að þar sem þessar breytingar hafa komið þá eru það víst verðin sem að fara upp og þjóunstan sem versnar. Og fólk sem hefur komið hingað frá löndum þar sem þetta er svona hafa haft orð á því hvað ástandið sé miklu betra hér,“ segir Páll og tekur fram að færi frumvarpið í gegn óbreytt myndi það hafa mjög skaðleg áhrif á leigubílaakstur. Hann staðfestir að Bifreiðastjórafélagið Frami muni skila inn umsögn í Samráðsgáttina áður en umsagnarfresti líkur.

„Það hafa breytingar átt sér stað áður en að oppna svona frjálst á starfsemina er ekki líklegt til árangurs og mun ekki vera til þess fallið að bæta ástandið,“ segir Páll að lokum.