Að sögn Þorgerðar Guðmundsdóttur, formanns Bifhjólasamtaka Lýðveldisins, eiga svona vinnubrögð ekki að líðast og eru til háborinnar skammar. "Þetta er ekki eini staðurinn þar sem þetta er svona. Á Mosfellsheiði er nýlögð klæðning sem er auðvitað stórhættuleg fyrir flest mótorhjól. Þannig var það líka við Akrafjall í dag þar sem voru lélegar merkingar og vegavinna. Ég var á leiðinni norður á mótorhjólinu þann 22. júli og norðan megin við Blönduós var búið að rífa upp veginn á góðum spotta. Þar var verið að leggja klæðningu sem var svo þykk að ef ég hefði farið í hana á hjólinu þá hefði hjólið sokkið ofaní og ég orðið föst" sagði Þorgerður um ástandið. Bifhjólafólk hefur í mörg ár kvartað yfir slælegum merkingum við þá staði þar sem viðgerðir fara fram og bent á að það geti verið hættulegt bifhjólafólki. Að sögn Steinmars Gunnarssonar hjá samstarfshópi bifhjólafólks við Vegagerðina, fékk Vegagerðin þessar upplýsingar í hendurnar strax í kvöld. "Þar var brugðist skjótt við og verður málið rannsakað strax í fyrramálið. Einnig verður málið tekið fyrir á samráðsfundi seinna í vikunni" sagði Steinmar.