Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, mun ræða við ríkislögreglustjóra og kanna afstöðu lögreglu gagnvart afskiptum sem hún hefur í tvígang haft af unglingspilt að undanförnu. Í samtali við blaðamenn mbl.is sagði Jón að afar óheppilegt sé að svona lagað hafi átt sér stað í aðgerðum lögreglu og mikilvægt sé að draga lærdóm af þessu.

Afskipti lögreglu að drengnum koma til vegna umfangsmikillar leitar sem enn stendur yfir á strokufanganum Gabríel Douane Boama, sem strauk úr Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrrakvöld. Móðir drengsins, sem lögregla hafði í annað sinn afskipti af í bakaríi á höfuðborgarsvæðinu, segir verklag lögreglu ekki líðandi og skoða þurfi aðferðir þeirra gaumgæfilega. Þá sagði hún einnig að það væru ekki aðeins að lögreglumenn sen ættu að líta sér nær heldur samfélagið í heild.

Aðspurður hvort að dómsmálaráðuneytið muni taka mál lögreglu til nánari skoðunar og beina tilmælum til hennar um verklag og framkvæmd leitarinnar sagðist Jón munu leita upplýsinga frá lögreglunni, en tók fram að hvorki ráðuneytið né ráðherra geti skipt sér af einstaka málum hjá lögreglunni. Þá segir hann einnig í samtalinu að sýna þurfi lögreglunni skilning á þessari stundu. Starfsaðstæður lögreglumanna sem sinni leitinni séu ekki einfaldar og álagið mikið.