Handritshöfundur þáttaraðarinnar Chernobyl biður ferðamenn sem gera sér leið á svæðið þar sem kjarnorkuslysið átti sér stað að sýna þeim sem þola máttu afleiðingar þess virðingu.

Craig Mazin er einn handritshöfunda þáttanna sem HBO framleiðir og hafa notið gífurlegra vinsælda. Hann segir það jákvætt að aukning hafi orðið í komu ferðamanna til borgarinnar Pripyat, hvar kjarnorkuverið er staðsett, í kjölfar þáttanna.

„En ef þið heimsækið, vinsamlegast munið að þarna áttu sér stað miklar hörmungar. Komið fram af virðingu við þá sem þola máttu þjáningarnar,“ skrifar Mazin í færslu á Twitter.

Tilefnið eru myndir sem ferðamenn hafa birt á Instagram af sér á vettvangi þessa hræðilega slyss. Mazin kveðst ekki hafa farið varhluta af birtingu þeirra. Ein slík, að því er The Guardian greinir frá, sýnir unga konu klædda í spilliefnabúning sem búið er að renna niður svo það sjáist örugglega í g-streng sem hún klæðist einnig.

Frá því að þættirnir hófu göngu sína í byrjun maí hefur aðsókn á svæðið aukist um 30 til 40 prósent að talið er. Hörmungarnar í Tsjernobyl-kjarnorkuverinu áttu sér stað í Úkraínu Sovétríkjanna sálugu árið 1986.

Slysið átti sér stað þegar verið var að gera tilraunir með kjarnaofn sem síðan sprakk þegar kæling brást. Í kjölfarið braust út eldsvoði hinum svokallaða „rafal fjögur“. Varð þetta til þess að gífurlegt magn geislavirkra efna slapp út í andrúmsloftið.

Um er að ræða mesta kjarnorkuslys sem orðið hefur með tilliti til kostnaðar og dauðsfalla. Enn þann dag í dag er almenningi meinaður aðgangur að verinu sjálfu. Gefst því færi á að heimsækja því sem nemur 10 kílómetrum frá kjarnorkuverinu þar sem kjarnaofninn sprakk.