Bára Hall­dórs­dóttir birti í dag færslu á Face­book þar sem hún segir frá því að hún hafi fengið upp­lýsingar um að nektar­myndir af henni væru í dreifingu á sam­fé­lags­miðlum undir yfir­skriftinni hefnd fyrir Klausturs­málið.

Að sögn Báru hafa margar konur sem eru með svipaðan stíl verið ruglað saman við Báru eftir Klausturs­málið. „Ef þú horfir laus­lega yfir en skoðar ekki al­menni­lega mætti halda að þær væru af mér,“ segir Bára í Face­book færslunni.

„Ég frétti fyrst af þessu rétt eftir hin­segin vikuna, svo er þetta búið að vera að poppa upp aftur og ég vil bara ekki að þetta lendi í höndunum á ættingjum eða eitt­hvað,“ segir Bára í sam­tali við Frétta­blaðið en myndirnar sem um ræðir eru ekki af henni heldur annarri konu sem nú er látin.

Hvernig orðar maður svona póst. Í vikunni eftir Hinsegin daga var mér sagt frá því að verið væri að deila nektarmyndum...

Posted by Bára Halldórsdóttir on Wednesday, September 25, 2019

„Þetta er dáin manneskja“

„Ég hugsaði fyrst með mér að þetta væru bara ein­hverjir krakkar eða eitt­hvað en fyrst þetta er enn­þá á floti þá neyðist ég til að adressa þetta,“ segir Bára en hún tekur fram að sér væri alveg sama ef myndirnar sem um ræðir væru af henni.

„Þetta er dáin manneskja, þetta á ekki að vera á röltinu á inter­netinu, fyrir utan að fólk á yfir höfuð ekkert að vera að deila svona myndum,“ segir Bára og hvetur fólk til að henda myndunum ef það fær þær sendar.

„Ef fólk þarf nauð­syn­lega nektar­myndir af mér þá er það ekkert vanda­mál en þetta er ó­þarfi,“ segir hún að lokum en í Face­book færslunni segist hún til í smekk­lega mynda­töku gegn góðum styrk til Stíga­móta.