Sund­garpurinn Magnea Hilmars­dóttir komst í hann krappann í Drang­eyjar­sundi í gær en litlu munaði að hún hefði týnt lífinu þegar hún stirðnaði skyndi­lega upp á sundinu. Hún segir lífs­reynsluna sanna að ekki sé hægt að treysta á það að fá við­vörun áður en það er orðið of seint.

„Mér fannst eigin­lega svaka­legast við þetta að falla í óminni, ég veit ekkert hvernig björgunin fór fram nema út frá því sem mér var sagt,“ segir Magnea í sam­tali við Frétta­blaðið.

Viss um að geta klárað

„Við vorum þrjú sem lögðumst til sunds klukkan hálf níu og var ætlun mín að synda 6,6 km á sirka þremur og hálfum tíma.“ Með í för var faðir Magneu sem vildi fylgjast með og að­stoðar­menn sem voru til taks ef eitt­hvað skildi fara úr­skeiðis.

Eftir um tveggja klukku­stunda sund leið Magneu vel og var hand­viss um að hún myndi klára sundið. „Ég fann ekki fyrir neinni þreytu og var bara upp­full af gleði og þrótti.“ Að­eins korteri seinna lenti hún á tæpasta vaði.

Posted by Magnea Hilmarsdóttir on Tuesday, August 4, 2020
Publicado por Magnea Hilmarsdóttir em Terça-feira, 4 de agosto de 2020

Klukku­stundar óminni

Að­stoðar­menn í bátnum sem fylgdu henni hentu til hennar skvísu (orku­drykk) í bandi og var hún í basli með opna hana. „Allt í einu var ég hætt að geta talað. Eina merkið sem ég gat gefið var að halda í skvísuna og dróst þá ör­lítið með bátnum áður en ég sleppti takinu.“ Hún reyndi að­eins að synda til að tapa ekki bátnum en var að ör­magnast.

„Eftir þetta tók við um klukku­stundar óminni hjá mér.“

Að­stoðar­mennirnir í bátnum sáu að ekki var allt með felldu, sundið var stefnu­lítið og Magnea stjörf í framan. Þeir báðu Magneu þá um að grípa í fót­stig aftan á bátnum. „Ég gat það ekki þó það væri við höndina á mér. Á þessum tíma hefði ég geta sokkið orða­laust í hafið.“

Farið var með sundfólkið á bát.
Mynd/Aðsend

Kallað á sjúkra­bíl

Sem betur fór tókst að­stoðar­mönnunum að hífa Magneu um borð í gúmmí­bát áður en illa fór. „Það tók ekki nema 5 mínútur að bruna með mig í land. Ég var svo borin að Grettis­laug þar sem mér var komið ró­lega ofan í laugina og höfðinu haldið uppi.“

Skömmu eftir að Magneu hafði verið komið í laugina var hringt á sjúkra­bíl þar sem hún var enn með stjarfa í augunum og virtist illa áttuð. „Það var ekki fyrr en sjúkra­bíllinn var kominn að ég kom til baka úr ó­minninu.“ Eftir að hún kom til var Magnea fljót að ná sér aftur.

Verra fyrir að­stand­endur en sund­mann

„Mín líðan var, og er, góð vegna þess að ég náttúru­lega missi af því versta en þau sem voru í kringum mig þurftu að horfa upp á þetta.“ Það hafi tekið hvað mest á föður Magneu að horfa upp á dóttur sína í þessu á­standi.

„Hann er að verða átt­ræður og vildi fylgja mér og kom með meira til að horfa en til að bjarga.“ Allir hafi þó komið úr ferðinni reynslunni ríkari.

„Mér finnst það svaka­legasta við þetta vera að ef þeir hefðu litið undan, kannski bara í fimm mínútur þá væri ég bara farin. Þetta gerist svo hratt.“

Posted by Magnea Hilmarsdóttir on Tuesday, August 4, 2020

Þarf kjark til að hætta

Magnea er þaul­vanur sund­maður og hefur meðal annars synt Al­cat­raz- og Við­eyjar­sund. „Ég hef stundað sjósund í rúm fjögur ár og ég passa mig alltaf að fara bara í land ef ég fer að finna ein­kenni eða vera of köld.“ Það þurfi meiri kjark til að hætta en að halda á­fram.

Magnea telur upp þau ein­kenni sem eiga til að birtast þegar það er kominn tími til að fara aftur í land. „Þegar ég fæ höku­skjálfta eða sjóntruflanir, þá fer ég skil­yrðis­laust í land og hef aldrei lent í basli.“ Hún í­trekar þó að stundum geri slysin engin boð á undan sér. „Það er daga­munur á okkur, einn dagurinn getur verið slæmur og svo er sá næsti mjög góður,“ bendir hún á.

Ekki hægt að treysta á við­vörun

„Við getum ekki treyst því að við fáum við­vörun áður en við sökkvum.“ Sjálf hafi hún einu sinni lent í slíkum hremmingum áður og lært af reynslunni. „Ó­vanir spyrja oft hvernig veit maður hve­nær maður á að hætta og eina rétta svarið er bara að maður veit það ekki alltaf.“ Jafn­vel þau reynslu­mestu geta ekki full­yrt um slíkt. „Þess vegna er mikil­vægt mál að synda ekki einn og að það sé ein­hver með sem gæti hjálpað við björgun.“

Mikil­vægt sé að fólk geri sér grein fyrir háskanum sem getur fylgt sjósundi að mati Magneu. Sjálf veit hún fátt betra en að dýfa sér í sjóinn og hvetur hún fólk ein­dregið til að vera vakandi fyrir hættunum áður en það leggst til sunds.