Nanna Briem, forstöðumaður geðþjónustu Landspítalans, segir í samtali við RÚV að það sé ekki skemmtileg ákvörðun að loka tíu plássum á geðdeild Landspítala en hún biður notendur að hafa ekki áhyggjur þar sem tryggt verið að þjónustan verði öflug.

Líkt og Fréttablaðið greindi frá í morgun verður tíu langleguplássum á Kleppi lokað tímabundið frá næstu áramótum. Þess í stað verður einstaklingum með geðrofssjúkdóma komið fyrir á Hringbraut. Alls mun rýmum á geðdeild fækka úr hundrað niður í níutíu. Anna Sigrún Baldursdóttir, framkvæmdastjóri skrifstofu forstjóra Landsspítalans, sagði ástæðuna vera verulegur skortur á hjúkrunarfræðingum og læknum í geðþjónustu.

Nanna tekur í sama streng við RÚV og segir ástæðuna vera manneklu.

„Auðvitað höfum við áhyggjur af því. Það er ekki skemmtilegt að loka plássum. Sérstaklega þar sem við erum Ísland er með færri rúm per 100 þúsund íbúa heldur en í okkar samanburðarlöndum. Og auðvitað höfum við áhyggjur af þessu einmitt út af því en við höfum ekki nógu mikið af fagfólki, það er bara grunnurinn. Og við getum ekki haldið uppi svona þjónustu sem við náum ekki að manna upp í sko bara lágmarksöryggismönnun,“ sagði hún.

Verið sé að gera allt til að tryggja að þjónustan verði ekki skert.

„Þannig að ég bið okkar notendur um að hafa ekki áhyggjur af þessu. Við munum gera allt sem við getum til að vera með öfluga þjónustu."