Lögmenn sem Fréttablaðið ræddi við í dag vegna nýrra sóttvarnarreglna um farsóttarhús eru ekki á eitt sáttir um það hvort um sé að ræða lögmæta aðgerð. Einn segir um augljóst brot gegn meðalhófi að ræða en annar segir hagsmuni heildarinnar ráða för.
Ragnar Aðalsteinsson, hæstaréttarlögmaður, segir í samtali við blaðið það vera aðalatriði að fólk viti fyrir fram í hvað stefnir áður en það kemur til landsins. „Það eru auðvitað allskonar sjónarmið en ég held það sé aðalatriði að fólk viti af því fyrirfram, áður en það kemur til landsins að þetta bíði þess og geti tekið ákvörðun,“ segir Ragnar.
Um neyðarástand sé að ræða og þá komi til skjalanna neyðarréttarleg sjónarmið. „Og við gengum lengra en við gerum þegar allt er í nokkurn veginn lagi. Og það bitnar auðvitað á mönnum en þá er þetta spurning um það hvort þetta þjóni almannaheill að koma í veg fyrir að menn beri smit inn í samfélagið.“
Segir um að ræða stórkostlegt brot gegn meðalhófi
Lögmaðurinn Þorgils Þorgilsson segir að málið fyrir sér sé einfalt. Um augljóst brot gegn meðalhófsreglunni sé að ræða.
„Ég held að það sé nokkuð ljóst að það skipti engu máli við hvaða lögmann þú talar við, frelsissvipting án dóms og laga er ólögleg,“ segir hann um málið.
„Þetta er bara stórkostlegt brot á meðalhófi. Þetta er ekki flóknara en það. Ég held þú getir alveg dottið bara niðrí 2. árs laganema til að skilja það, þó að Alþingismenn séu ekki að fatta það.“
Segist ekki vera með hita
Að síðustu bendir Þorgils á Facebook færslu Sveins Andra Sveinssonar um málið og hvetur blaðamann til þess að spyrja Svein hvort hann sé með hita. Í samtali við Fréttablaðið hafnar Sveinn því og spyr blaðamann á móti hvort Þorgils sé kominn með kófið.
„Ég hef bara enga samúð með þessu fólki sem er að væla yfir þessu, á meðan við erum flest bara að hanga heima og neitum okkur um utanlandsferðir. Ég hef bara enga samúð með fólki hvort það taki sóttkví heima hjá sér eða á einhverju lúxushóteli. Sorrí, I bara could not care less sko. Að líkja þessu við fangelsi er bara eins og hvert annað grín,“ segir Sveinn.
Hann segir það vanvirðingu að líkja ástandi mála í farsóttarhúsinu við ástandið í einræðisríkinu Norður-Kóreu.
Þér er hreint ekki hlátur í hug?
„Nei. Það sem mér finnst skipta máli er að við höfum á að skipa ágætum sérfræðingum sem að eru að reyna að sjá til þess að þessari veiru sé haldið í skefjum. Og við eigum bara að fylgja því,“ segir hann.
Hann segir alla vitaskuld fúla yfir því að komast ekki í líkamsrækt og á barinn. Það eigi við um alla. „Er það þá ekki einhver skerðing á mannréttindum sem skortir einhvern lagagrundvöll?“ spyr hann.
„Þetta er bara meiri hagsmunir fyrir minni, sem gildir í þessu og einhver nákvæmur lagagrundvöllur fyrir þessum sóttkvíarhótelum, það þykir mér bara fullkomið aukaatriði. Verði þeim að góðu sem ætla að reyna að sækja skaðabætur því þeir eru látnir gista á hótelum en ekki heima hjá sér. Rosalegt tjón hjá fólki,“ segir Sveinn.
„En ég ætla að segja þá við sama fólk, sem kemur til mín með þessi erindi að hætta þessu væli og bara taka þetta á kassann fyrir heildina,“ segir hann.
„Og það má bara segja það að fólk sem er að vinna við þetta, í framlínunni, það er búið að taka á sig byrðarnar í samfélaginu út af þessum sjúkdómi, plús það fólk sem er í áhættuhópum. Ég veit það ekki, ég er kannski kaldlyndur en ég bara vorkenni ekki rassgat því fólki sem er skikkað til þess að vera í hótelsóttkví frekar en heimasóttkví í fimm daga. Mér er fyrirmunað að finna einhvern vott af samúð.“
Við sem sýnum sóttvarasamstöðu og neitum okkur um utanlandsferðir fögnum þessum nýjustu og löngu tímabæru...
Posted by Sveinn A Sveinsson on Friday, 2 April 2021
Breytingin stenst ekki ákvæði nýsamþykktra sóttvarnalaga
Þá hafa lögmenn sem Fréttablaðið hefur rætt við, vakið athygli á að þessi nýja breyting standist ekki ákvæði nýsamþykktra sóttvarnalaga. 1. gr. þeirra er sóttvarnahús skilgreint sem „staður þar sem einstaklingur, sem ekki á samastað á Íslandi eða getur af öðrum sökum ekki eða vill ekki einangra sig í húsnæði á eigin vegum, getur verið í sóttkví eða einangrun vegna gruns um að hann sé smitaður af farsótt eða ef staðfest er að svo sé.“
Ofangreind skilgreining var ekki í frumvarpi heilbrigðisráðherra heldur kom hún inn í lögin í meðförum Alþingis. Af því má álykta að Alþingi lýti svo á að ekki megi skikka Íslendinga í sóttvarnahús nema þeir séu í fyrsta lagi annað hvort smitaðir eða grunur leiki á um smit og í öðru lagi að þeir neiti að fara í sóttkví hafi brotið gegn ákvörðun um sóttkví eða hafi ekki í önnur hús að venda.