Lög­menn sem Frétta­blaðið ræddi við í dag vegna nýrra sótt­varnar­reglna um far­sóttar­hús eru ekki á eitt sáttir um það hvort um sé að ræða lög­mæta að­gerð. Einn segir um aug­ljóst brot gegn meðal­hófi að ræða en annar segir hags­muni heildarinnar ráða för.

Ragnar Aðal­steins­son, hæsta­réttar­lög­maður, segir í sam­tali við blaðið það vera aðal­at­riði að fólk viti fyrir fram í hvað stefnir áður en það kemur til landsins. „Það eru auð­vitað alls­konar sjónar­mið en ég held það sé aðal­at­riði að fólk viti af því fyrir­fram, áður en það kemur til landsins að þetta bíði þess og geti tekið á­kvörðun,“ segir Ragnar.

Um neyðar­á­stand sé að ræða og þá komi til skjalanna neyðar­réttar­leg sjónar­mið. „Og við gengum lengra en við gerum þegar allt er í nokkurn veginn lagi. Og það bitnar auð­vitað á mönnum en þá er þetta spurning um það hvort þetta þjóni al­manna­heill að koma í veg fyrir að menn beri smit inn í sam­fé­lagið.“

Segir um að ræða stór­kost­legt brot gegn meðal­hófi

Lög­maðurinn Þor­gils Þor­gils­son segir að málið fyrir sér sé ein­falt. Um aug­ljóst brot gegn meðal­hófs­reglunni sé að ræða.

„Ég held að það sé nokkuð ljóst að það skipti engu máli við hvaða lög­mann þú talar við, frelsis­svipting án dóms og laga er ó­lög­leg,“ segir hann um málið.

„Þetta er bara stór­kost­legt brot á meðal­hófi. Þetta er ekki flóknara en það. Ég held þú getir alveg dottið bara niðr­í 2. árs laga­nema til að skilja það, þó að Al­þingis­menn séu ekki að fatta það.“

Segist ekki vera með hita

Að síðustu bendir Þor­gils á Face­book færslu Sveins Andra Sveins­sonar um málið og hvetur blaða­mann til þess að spyrja Svein hvort hann sé með hita. Í sam­tali við Frétta­blaðið hafnar Sveinn því og spyr blaða­mann á móti hvort Þor­gils sé kominn með kófið.

„Ég hef bara enga sam­úð með þessu fólki sem er að væla yfir þessu, á meðan við erum flest bara að hanga heima og neitum okkur um utan­lands­ferðir. Ég hef bara enga sam­úð með fólki hvort það taki sótt­kví heima hjá sér eða á ein­hverju lúxus­hóteli. Sorrí, I bara could not care less sko. Að líkja þessu við fangelsi er bara eins og hvert annað grín,“ segir Sveinn.

Hann segir það van­virðingu að líkja ástandi mála í far­sóttar­húsinu við á­standið í ein­ræðis­ríkinu Norður-Kóreu.

Þér er hreint ekki hlátur í hug?

„Nei. Það sem mér finnst skipta máli er að við höfum á að skipa á­gætum sér­fræðingum sem að eru að reyna að sjá til þess að þessari veiru sé haldið í skefjum. Og við eigum bara að fylgja því,“ segir hann.

Hann segir alla vita­skuld fúla yfir því að komast ekki í líkams­rækt og á barinn. Það eigi við um alla. „Er það þá ekki ein­hver skerðing á mann­réttindum sem skortir ein­hvern laga­grund­völl?“ spyr hann.

„Þetta er bara meiri hags­munir fyrir minni, sem gildir í þessu og ein­hver ná­kvæmur laga­grund­völlur fyrir þessum sótt­kvíar­hótelum, það þykir mér bara full­komið auka­at­riði. Verði þeim að góðu sem ætla að reyna að sækja skaða­bætur því þeir eru látnir gista á hótelum en ekki heima hjá sér. Rosa­legt tjón hjá fólki,“ segir Sveinn.

„En ég ætla að segja þá við sama fólk, sem kemur til mín með þessi erindi að hætta þessu væli og bara taka þetta á kassann fyrir heildina,“ segir hann.

„Og það má bara segja það að fólk sem er að vinna við þetta, í fram­línunni, það er búið að taka á sig byrðarnar í sam­fé­laginu út af þessum sjúk­dómi, plús það fólk sem er í á­hættu­hópum. Ég veit það ekki, ég er kannski kald­lyndur en ég bara vor­kenni ekki rass­gat því fólki sem er skikkað til þess að vera í hótel­sótt­kví frekar en heima­sótt­kví í fimm daga. Mér er fyrir­munað að finna ein­hvern vott af sam­úð.“

Við sem sýnum sóttvarasamstöðu og neitum okkur um utanlandsferðir fögnum þessum nýjustu og löngu tímabæru...

Posted by Sveinn A Sveinsson on Friday, 2 April 2021

Breytingin stenst ekki á­kvæði ný­sam­þykktra sótt­varna­laga

Þá hafa lög­menn sem Frétta­blaðið hefur rætt við, vakið at­hygli á að þessi nýja breyting standist ekki á­kvæði ný­sam­þykktra sótt­varna­laga. 1. gr. þeirra er sótt­varna­hús skil­greint sem „staður þar sem ein­stak­lingur, sem ekki á sama­stað á Ís­landi eða getur af öðrum sökum ekki eða vill ekki ein­angra sig í hús­næði á eigin vegum, getur verið í sótt­kví eða ein­angrun vegna gruns um að hann sé smitaður af far­sótt eða ef stað­fest er að svo sé.“

Ofan­greind skil­greining var ekki í frum­varpi heil­brigðis­ráð­herra heldur kom hún inn í lögin í með­förum Al­þingis. Af því má á­lykta að Al­þingi lýti svo á að ekki megi skikka Ís­lendinga í sótt­varna­hús nema þeir séu í fyrsta lagi annað hvort smitaðir eða grunur leiki á um smit og í öðru lagi að þeir neiti að fara í sóttkví hafi brotið gegn á­kvörðun um sóttkví eða hafi ekki í önnur hús að venda.