Andris Kal­vans sem leitað hefur verið að síðan í lok desember 2019 fannst látinn í dag. Leit hefur staðið yfir í rúma sex mánuði.

Einar Strand forstöðumaður hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg segir léttir að leitin í dag hafi gengið vel en að skipuleggjendur leitarinnar hafi verið að bíða eftir því að snjórinn færi. Aðstæður til leit­ar hafa verið erfiðar á svæðinu síðustu mánuði og var Andris tal­inn af fyr­ir nokkru. Ekki var því um lífs­bjarg­andi leit að ræða í dag.

„Við vildum hefja leit að nýju þegar snjórinn væri alveg farinn. Við fáum ekki mörg tækifæri til að gera svona umfangsmikla leit þar sem við náum öllum sjálfboðaliðunum saman. Þess vegna þarf að velja tímasetningu af kostgæfni svo að líkurnar á að finna einstaklinginn séu meiri."

Hann segir lengi hafi staðið til að hefja leitina að nýju en veðurspáin hafi spilað inni í.

„Okkur leið jafn illa og öllum öðrum að hafa ekki getað klárað leitina og fundið manninn en við vildum velja dagsetninguna vel. Þetta þurftu helst að vera um helgi og veðurspáin þurfti að vera góð og snjórinn farinn."

Einar brýnir fyrir fólki sem gengur á fjöll að klæðast skærum litum.

„Þegar fólk fer á fjöll í jarðlituðum fötum getur verið ansi erfitt að finna það. Á fjöll áttu ekki að fara nema helst í appelsínugulu eða skærgrænu," segir Einar.

Aðstæður voru með besta móti við leitina í dag. Leitin hófst klukkan níu í morgun og lauk um hádegi.


Hundruð björgunarsveitarmenn tóku þátt

Andris var fæddur árið 1962 og bú­­settur í Reykja­­vík. Hann var vanur fjall­­göngu­­maður en hans hefur verið leitað með hléum síðan 30. desember síðast­liðinn þegar bíll hans og búnaður fannst við Hey­dal á Snæ­fells­nesi.

Um hundrað björgunarsveitarmenn víðs vegar af landinu leituðu að Andiras í Hnappadal í dag. Þungi leitarinnar var á austanverðu Snæfellsnesi.

„Ég er óhemju stoltur af fólkinu okkar í björgunarsveitinni og hvað það er tilbúið að leggja á sig. Það er mikill léttir að leitin gekk vel í dag og hann er fundinn."

Aðstæður voru með besta móti við leitina í dag
Ljósmynd/Slysavarnafélagið Landsbjörg