Líkt og greint hefur verið frá síðustu mánuði er mikil bið eftir meðferð hjá átröskunarteymi Landspítalans. Tæplega hundrað manns eru nú á biðlista sem þurfa líklegast að bíða í 20 mánuði eftir aðstoð.

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, sendi inn fyrirspurn til heilbrigðisráðherra varðandi átröskunarteymi LSH. Þar spurði hann m.a. annars hver ástæðan væri fyrir því að bið eftir þjónustu átröskunarteymis hefur lengst á undanförnum misserum og hvernig ráðherra hygðist bregðast við.

Í svari Svandísar Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, kemur fram að ástæðurnar séu margþættar. Megi þar nefna húsnæðisvanda, en mygla kom upp í húsnæði átröskunarteymisins á Hvítabandinu sem leiddi til óvinnufærni hluta starfsmanna.

Í kjölfarið, eða árið 2019, var teymið flutt í göngudeildarhúsnæði geðþjónustunnar á Kleppi. Vegna þessa varð hlé á innskriftum nýrra sjúklinga í teymið frá mars til október 2019. Þá hefur aukin eftirspurn verið eftir þjónustu teymisins og starfsmönnum í teyminu fækkaði, m.a. vegna veikinda sökum myglunnar og skorts á sérhæfðu starfsfólki en stöðugildum í teyminu hefur fækkað um fjórðung á síðustu 3-4 árum og þá hafi kórónuveirufaraldurinn einnig haft áhrif.

Ráðherra segir að húsnæðismál teyma á geðsviði Landspítala sem búið hafa við ófullnægjandi húsakost eru til skoðunar í ráðuneytinu.

Mygla í húsnæði Hvítabandsins varð til þess að starfsmenn þurftu að fara í veikindaleyfi.

Þá spurði Andrés Ingi einnig hvernig fjárveiting hafi verið til átröskunarteymisins síðastliðinn fimm ár.

Í svari heilbrigðisráðherra kemur fram að átröskunarteymið hefur ekki verið með sérstaka fjárveitingu innan geðþjónustu. Áætlaður kostnaður átröskunarteymisins árið 2020 var um 55 milljónir króna. Þegar teymið var fjölmennast árið 2016 má áætla að kostnaðurinn hafi verið 73 milljónir króna. (á verðlagi ársins 2020).

Ekki hægt að veita svo sérhæfða þjónustu á mörgum stöðum

Að lokum spyr Andrés Ingi heilbrigðisráðherra hvort ástæða sé til að móta heildstæðari stefnu í meðferð við átröskun, þar sem m.a. væri tekið til skoðunar að starfrækja átröskunarteymi víðar en við Landspítala og kannaður yrði möguleiki á því að starfrækja meðferðarheimili fyrir átröskunarsjúklinga.

Þar segir ráðherra að sú meðferð sem beitt er á geðsviði Landspítala sé byggð á nýjustu þekkingu hverju sinni og er veitt samkvæmt klínískum leiðbeiningum. Vegna þess hversu sérhæfðrar þekkingar er þörf til að sinna þeim hópi sem glímir við átröskun er ljóst að hér á landi er ekki hægt að veita svo sérhæfða þjónustu á mörgum stöðum.

„Þannig gegnir sérhæft átröskunarteymi á geðþjónustu Landspítala hlutverki þekkingarmiðstöðvar með tilliti til gagnreyndrar meðferðar fyrir fólk sem greinist með átröskun. Hlutverk slíkrar þekkingarmiðstöðvar er m.a. að vera ráðgefandi og sinna handleiðslu fyrir fagfólk í fyrsta og annars stigs heilbrigðisþjónustu, sem er meginmeðferðaraðili fólks sem glímir við geðrænar áskoranir," segir í svari ráðherra.

Sem fyrr segir eru um 100 manns á biðlista hjá teyminu og meðalbiðtíminn 18 mánuðir. Fyrir tæplega tveimur árum var bið­tíminn þrír mánuðir eins og sjá má á meðfylgjandi töflu.

Fréttablaðið/Skjáskot
Fréttablaðið/Skjáskot

Fjallað var ítarlega um málið í helgarblaði Fréttablaðsins í desember. Þar sagði ung kona, sem glímt hefur við átröskun í áraraðir að biðin eftir að­stoð geti reynst ban­væn. Al­gengasta dánar­or­sök átröskunar­sjúk­linga er sjálfs­víg en konan upp­lifði það á eigin skinni hversu mikil­vægt það var að fá rétta að­stoð á réttum tíma.