Þröstur Jón Sigurðsson, eigandi Sporthússins í Kópavogi, hefur skyndilega ákveðið að loka líkamsræktarstöðinni eftir að hafa opnað fyrir skipulagða hópatíma á þriðjudag.

„Vegna skilaboða sóttvarnalæknis gegnum fjölmiðla og þeirrar miklu sundrungar sem virðist vera í samfélaginu vegna opnunar líkamsræktarstöðva hef ég ákveðið að axla ábyrgð og loka starfsemi okkar aftur, í von um að það sé rétt ákvörðun fyrir almannahag,“ segir hann í færslu á Facebook-síðu Sporthússins.

Sú ákvörðun stjórnenda Sporthússins og annarra líkamsræktarstöðva á borð við World Class að bjóða fólki að mæta í hópatíma hefur reynst umdeild.

Hluta af deilunum má rekja til misræmis milli minnisblaðs sóttvarnarlæknis og reglugerðar heilbrigðisráðherra, þar sem ráðherra leyfði hópatíma með takmörkunum þvert á tilmæli sóttvarnarlæknis.

Segir marga hafa verið óánægða með ákvörðunina

Að sögn Þrastar fann hann fyrir mikilli og almennri óánægju með þá ákvörðun Sporthússins að nýta sér heimildina í reglugerð ráðherra.

„Í ljósi þessa tel ég að ekki hafi verið rétt að svo stöddu að opna Sporthúsið, CrossFit, BootCamp, SuperForm og aðra starfsemi hjá okkur sem kennd er í hópum.“

Tekur lokunin gildi frá og með morgundeginum.

Þar að auki biðst Þröstur innilega afsökunar á „þeim óþægindum sem þetta hringl hefur valdið“ og bendir á að ekki sé vitað til þess að kórónaveirusmit hafi verið rakið til Sporthússins þrátt fyrir gríðarlegan fjölda heimsókna frá því í vor.

„Með von um að friður skapist í samfélaginu með þessari ákvörðun og vonandi getum við opnað Sporthúsið að fullu áður en langt um líður,“ segir Þröstur að lokum.