Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, sætir nú gagnrýni hægri flokka og þjóðernispópúlista fyrir það eitt að hafa dansað og sungið með vinum sínum í partíi. Myndband úr partíinu fór í dreifingu á Instagram og slúðurfjölmiðilinn Iltalehti vakti athygli á því.

Hefur Marin verið sökuð um að nota fíkniefni þó ekkert bendi til þess að svo sé. Einnig hefur verið sagt að forsætisráðherra landsins ætti ekki að haga sér á þennan hátt, það er að sletta svona úr klaufunum.

Marin hefur hins vegar svarað gagnrýninni fullum hálsi og lofað því að breyta ekki hegðun sinni. Hún hafi fullan rétt til þess að skemmta sér með vinum sínum eins og aðrir.

„Ég hef ekki notað nein fíkniefni, önnur en áfengi. Ekki heldur verið í aðstöðu þar sem aðrir í kringum mig séu að nota fíkniefni. Ég var að dansa, syngja, skemmta mér, faðma vini mína, allt sem er fullkomlega löglegt,“ sagði hún.

Ólst upp við fátækt og alkóhólisma

Marin vakti heimsathygli þegar hún varð yngsti forsætisráðherra heims árið 2019, þá aðeins 34 ára gömul. Hún situr fyrir Sósíaldemókrata, SDP, sem sitja í ríkisstjórn með fjórum öðrum miðju og vinstri flokkum. Marin tók ekki við strax eftir kosningar heldur eftir að þáverandi forsætisráðherra, Antti Rinne, sagði af sér embætti vegna óeiningar í stjórninni í kjaramálum. Árið 2020 varð Marin svo formaður Sósíaldemókrataflokksins.

Ungar konur eru áberandi í stjórn Finnlands.
Fréttablaðið/Getty

Fædd í höfuðborginni Helsinki en alin upp í Tampere í vesturhluta landsins ólst Marin upp við erfiðar aðstæður. Fjölskyldan var efnalítil og faðirinn alkóhólisti. Að lokum skildu foreldrar hennar og móðirin tók saman við aðra konu. Marin hefur sagt að móðir sín hafi ávallt haft trú á henni og stutt hana til að ná árangri í lífinu. Það gekk eftir. Hún varð sú fyrsta í sinni fjölskyldu sem gekk í háskóla, þegar hún lærði stjórnsýslufræði við Háskólann í Tampere.

Marin fékk snemma áhuga á stjórnmálum, gekk í unglingahreyfingu SDP og komst í borgarstjórn Tampere. 28 ára var Sanna Marin orðin formaður borgarráðs, ári seinna varaformaður SDP og árið þar á eftir kjörin á þing. Eftir kosningarnar árið 2019 varð hún samgönguráðherra í rúmlega hálft ár áður en hún tók við forsætisráðuneytinu.

Grjóthörð gagnvart Rússum

Sanna Marin hefur nú verið forsætisráðherra í næstum þrjú ár, mun lengur en þær tvær konur sem áður höfðu gengt embættinu. Hún hefur einnig vakið heimsathygli, ekki aðeins fyrir að vera ung heldur einnig fyrir einarða afstöðu sína í ýmsum málum. Hún er gallharður femínisti og umhverfissinni. En það sem hefur vakið hvað mesta athygli er hörð afstaða gagnvart Rússum eftir innrásina í Úkraínu.

Undir stjórn Marin hefur Finnland sótt um aðild að Atlantshafsbandalginu, ásamt Svíþjóð. Þetta brýtur blað í sögu landsins sem á afar langa og nána sögu með Rússlandi og Sovétríkjunum. Hefur Marin látið hótanir Rússa um „afleiðingar“ sem vind um eyru þjóta. Hún lofaði í maí að umsóknarferlið myndi gerast hratt og þessa dagana eru þjóðþing bandalagsins að staðfesta umsókn landanna tveggja.

Marin hefur einnig verið meðal þeirra þjóðhöfðingja sem harðast hafa gengið fram í kröfum um þvinganir gegn Rússum, þrátt fyrir að deila rúmlega 1300 kílómetra landamærum með þeim.

„Við verðum að vera tilbúin að færa fórnir til að stöðva stríðið,“ sagði Marin strax í apríl þegar hún ræddi um orkumál. En hún hefur þrýst á að Evrópusambandsríkin hætti að kaupa orku af Rússum og þar með fjármagna stríðið í Úkraínu. Hún hefur einnig veitt og heitið miklum stuðningi við Úkraínu, það er fjárhagslegan stuðning, hernaðarlegan og aðstoð við flóttamenn.

Nýlega sagði Marin það óásættanlegt að rússneskir ferðamenn gætu frjálslega farið um Evrópu. En þrátt fyrir flug og hafnbann kemst fjöldi Rússa inn á Schengen svæðið í gegnum Finnland og fleiri ríki. Aðrir Evrópusambandsleiðtogar, utan Eista, hafa ekki viljað ganga svo langt.

Forsíða Trendi vakti mikla athygli.
Mynd/Trendi

Imwithsanna

Sanna Marin hefur líka áður vakið athygli fyrir atriði sem lúta að hennar einkalífi. Haustið 2020 vakti klæðaburður hennar í forsíðuviðtali tískuritsins Trendi athygli, og hneykslan sumra. En þar var hún í jakka án skyrtu eða bols innan undir.

Líkt og nú, fannst sumum það ekki sæmandi forsætisráðherra að bera hold sitt á þennan hátt og lýstu þeir hneykslan sinni. Margar finnskar konur, og nokkrir karlar, tóku hins vegar til varna fyrir hana og birtu myndir af sér í sams konar fatnaði á samfélagsmiðlum ásamt myllumerkinu imwithsanna.

Í desember síðastliðnum kom einnig upp mál sem rataði í heimsfréttirnar. En þá hafði hún farið á næturklúbb eftir að hafa verið nálægt meðráðherra sínum sem hafði verið greindur með COVID-19. Var hún gagnrýnd fyrir að hafa ekki farsímann á sér og þar af leiðandi var ekki hægt að láta vita að hún þyrfti að fara í sóttkví.

Í yfirlýsingu sagðist Marin hafa talið sig ekki þurfa að fara í sóttkví vegna bólusetningar. Hún játaði hins vegar að hafa misskilið stöðuna og baðst afsökunar á atvikinu.

Í júlí síðastliðnum var svo birt önnur ljósmynd sem fór öfugt ofan í suma. En það var mynd tekin baksviðs á rokkhátíðinni Ruisrock, þar sem hún var klædd leðurjakka og stuttbuxum. Sumum fannst erfitt að sjá forsætisráðherra sinn í slíkum klæðnaði. Mun fleiri lýstu hins vegar ánægju með ljósmyndina, enda hefur Finnland lengi verið eitt helsta gósenland rokkara.

Baksviðs á Ruisrock í sumar.