N1 Rafmagn, áður Íslensk orkumiðlun, biðst velvirðingar og segist ætla að endurgreiða viðskiptavinum sínum mismun á auglýstu verði og þeirri upphæð sem fólk var rukkað um.

„Jafnframt hefur verið ákveðið að endurgreiða mismun á uppgefnum taxta og þrautavarataxta frá 1. nóvember síðastliðnum þegar félagið var valið af Orkustofnun til að sinna þessu hlutverki,“ segir í tilkynningu frá Hinriki Erni Bjarnasyni, framkvæmdastjóra N1.

Stundin greindi frá því í lok desember að rannsókn væri hafin á vegum Orkustofnunar á því hvort Íslenskri orkumiðlun/N1 Rafmagni væri heimilt að rukka suma viðskiptavini sem höfðu komið til fyr­ir­tæk­is­ins í gegn­um svokallaða þrauta­vara­leið mun hærra verð en var auglýst.

Til að tryggja að heimili verði ekki rafmagnslaus þegar fólk flytur á milli heimila velur orkustofnun fyrirtæki til þrautavara. Í þessu tilviki varð N1 fyrir valinu fyrir að hafa auglýst lægsta meðalverð.

Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri sagði í samtali við RÚV í gær að margir hefðu lagt inn kvörtun og að málið væri til skoðunar.

Neitar að hafa reynt að blekkja neytendur

Framkvæmdastjóri N1 vísar í ófyrirsjáanlegar verðsveiflur á orkumarkaði í tilkynningu til fjölmiðla og neitar því að hafa reynt að blekkja neytendur á nokkurn heitt. Þykir honum leitt að neytendur hafi túlkað það svo.

„Við fögnum virkri samkeppni og munum nú sem áður þjónusta okkar viðskiptavini með það að leiðarljósi að bjóða lægsta verð hverju sinni. Við hvetjum alla neytendur til að skrá sig sjálfa hjá þeim orkusala sem þeir kjósa, án aðkomu stjórnvalda.“

Yfirlýsing N1 í heild sinni.