Stefán Hrafn Hagalín, deildarstjóri samskiptadeildar Landspítala, hefur beðist afsökunar á tölvupósti sem sendur var á á þriðja hundrað stjórnendur spítalans í vikunni en í póstinum var að finna fyrirmæli um að starfsmenn skyldu ekki svara fjölmiðlum heldur beina fyrirspurnum til samskiptadeildar. Í tölvupóstinum kallaði Stefán meðal annars fjölmiðlafólk „skrattakolla.“

Í Vikulokunum á Rás 1 í morgun sagði Stefán að það hafi ekki verið tilgangurinn að þagga niður í sérfræðingum heldur að fá fyrirspurnir fjölmiðla á miðlægan hátt. „Spítalinn teflir alltaf fram þeim sérfræðingum sem beðið er um hverju sinni, eru lausir á vakt og til í spjall og annað slíkt.“

„Við reynum að tefla forstjóra oftast fram ef um er að ræða stefnu og stjórnun spítalans eða fjármögnun en annars svara sérfræðingar á hverju sviði, alveg hindrunarlaust og milliliðalaust, “ sagði Stefán í Vikulokunum. „Ég biðst afsökunar á þessum tölvupósti og öllu í kringum þetta. Þetta er afleitt hjá mér.“

Biður fjölmiðlafólk velvirðingar

Í færslu um málið á Facebook síðu sinni vísar Stefán til þess að Landspítali fái í venjulegu árferði um fjögur þúsund fyrirspurnir en í gegnum faraldurinn hafi það magn verið tvöfalt. „Það er engin leið til að hafa yfirsýn og svara svo mörgum fyrirspurnum hratt og örugglega nema starfrækja einhvers konar samskiptadeild til að útvega fjölmiðlum upplýsingar, gögn og viðmælendur.“

„Þöggun er alls ekki tíðkuð á Landspítala, frekar en víðast hvar annars staðar í samfélaginu,“ sagði Stefán í færslu sinni. „Ég er sumpartinn óheflaður vargur utan af landi og því stundum dálítið harkalegur í samskiptum. Það virðist alls ekki eldast nægilega hratt af mér og ég bið bæði mitt góða samstarfsfólk og vini mína hjá fjölmiðlum velvirðingar á því. Mea culpa.“

Gagnrýna þöggunarmenningu

Fyrirmælin hafa verið harðlega gagnrýnd, þar á meðal af Reyni Arngrímssyni, formanni Læknafélags Íslands en í viðtali við Fréttablaðið sagði Reynir það vera eitt af hlutverkum akademískra starfsmanna að veita almenningi upplýsingar. Það séu þau sem vita oft best þegar um flókin vandamál er að ræða, eins og í Covid-faraldrinum.

„Það að ætla að miðstýra því af framkvæmdastjórn Landspítalans finnst mér alveg út í hött. Það er áhyggjuefni að spítalinn láti sér detta þetta til hugar,“ sagði Reynir. Hann sagði félagið líta svo á að það eigi ekki að vera þöggunarmenning á spítalanum.

Þá skoraði formaður Blaðamannafélags Íslands, Sigríður Dögg Auðunsdóttir, á Landspítalann að taka fyrirmælin til baka og sagði þau algjörlega ólíðandi. „Þau munu einungis hafa þau áhrif að hindra streymi mikilvægra og nauðsynlegra upplýsinga milli heilbrigðisstarfsfólks og fjölmiðla,“ sagði Sigríður.

Búinn að taka út sína refsingu

Í Vikulokunum sagðist Stefán skilja það vel að fjölmiðlar taki því illa þegar þeim finnst þau upplifa þöggunartilburði en ítrekaði að pósturinn hafi ekki átt að vera túlkaður þannig. Að hans sögn var pósturinn skrifaður í lok langs vinnudags, eftir stutt sumarfrí, og hafi verið mjög þreytulegur.

Þá sagðist hann hafa tekið út sína refsingu síðastliðna daga þar sem mikið hefur verið fjallað um málið í fjölmiðlum. „Þannig að ég er allavega búinn að fá þá hirtingu sem ég sennilega bara átti skilið og framleiddi sjálfur. Er það ekki yfirleitt þannig að holurnar sem við hrösum um eru þær sem við höfum grafið sjálf?“ sagði Stefán í þættinum.