Mikið blíðviðri er í dag á höfuðborgarsvæðinu og víðar um land og hafa fjölmargir nýtt tækifærið til að koma sér í sund. Í Vesturbæjarlauginni hefur frá því um hádegisbil verið röð út á götu. Anna Kristín Sigurðardóttir, forstöðumaður Vesturbæjarlaugar, segir í samtali við Fréttablaðið að það sama hafi gerst á mánudaginn og um helgina. Þau séu mjög bundin af fjöldatakmörkunum sem nú taki einnig inn öll börn sex ára og yngri.
„Það er búið að vera röð síðan í hádeginu. Biðin er ekki svo löng, það virðist fara einn inn og einn koma út,“ segir Anna Kristín.
Hún segir að það séu tilmæli frá sóttvarnayfirvöldum að stytta sundferðirnar en að þau hafi ekki skipt sér af því hversu lengi fólk dvelur þar.

Samkvæmt sóttvarnareglur má aðeins 50 prósent af leyfilegum hámarksfjölda gesta vera í lauginni auk þess sem gæta verður að tveggja metra reglunni.
„Það er tveggja metra regla í pottinum og þar ströndum við yfirleitt. Við náum aldrei upp í helmingsnýtingu á fjölda og nú teljast grunnskólabörn með, en þau töldust ekki með áður,“ segir Anna Kristín og bendir á að í dag, og aðra virka daga, sé skólasund sem geti haft áhrif en því lauk klukkan 16 í dag.
„Það er gott veður og sumarið er greinilega á leiðinni. En kannski rýmkast aðeins þegar fólk fer að fara í sólbað. Þá verður ekki eins þröngt í pottunum,“ segir Anna Kristín sem vonast til þess að brátt verði rýmkað vegna sóttvarna á sundstöðum hvað varðar nálægðarmörk og fjöldatakmörk.
