Búast má við því að þúsundir leggi leið sína til Vatíkansins í vikunni en í þrjá daga er nú hægt að votta Benedikt páfa virðingu sína í Péturskirkju, en hann lést á gamlársdaga. Hann var 95 ára þegar hann lést en hann sagði af sér sem páfi árið 2013 vegna slæmrar heilsu.
Arftaki hans, Frans páfi, mun sjá um jarðarför hans síðar í vikunni en það er í fyrsta sinn sem arftaki stýrir útför páfa.
Á myndum frá Péturstorginu má sjá að raðir höfðu þegar myndast snemma í morgun.
Í frétt BBC um málið er rætt við nokkra sem stóðu í röðinni, þar á meðal prestinn Alfredo Elnar frá Filippseyjum sem sagðist hafa stúderað páfann og sagðist finna fyrir tómleikatilfinningu eftir andlát hans.
Nunnan Marianna Patricevic frá Króatíu sagðist þakklát fyrir allt sem páfinn hafði gert og sagði hann ávallt hafa sagt sína skoðun á því sem hann skoðaði.
Lík páfans verður til sýnis í Péturskirkju þar til klukkan sjö hvert kvöld og jarðarförin fer fram á Péturstorgi. Eftir það verður páfinn lagður til sinnar hinstu hvílu í kirkjunni. Hann liggur í kirkjunni í rauð sorgarklæði páfa með gullitað mítur sem er höfuðfat biskups.
Búast má við því að þúsundir muni vera viðstaddir útför páfans en hugheilar kveðjur hafa borist hvaðanæva úr heiminum. Síðasta útför páfa fór fram árið 2005 þegar John Paul páfi lést en þá lögðu um fjórar milljónir leið sína til Róm.
