Arn­þór Jóns­son, for­maður SÁÁ, furðar sig á því að bið­listi á Vog sé nú lengri en hann var nokkurn tímann í fyrra, í nýrri færslu sem hann birtir á vef­síðu SÁÁ. Segir hann að við­bótar­fjár­magn sem sam­þykkt hafi verið á Al­þingi hafi farið í allt annað en að stytta um­ræddan bið­lista.

„Í lok ársins var við­bótar­fjár­veiting sam­þykkt á þinginu, en þó með fyrir­vörum um ráð­stöfun þessara fjár­muna sem beindu peningunum í allt annað en að stytta bið­lista inn á Vog.

Var það látið gott heita á þinginu og ráð­herra mála­flokksins og for­stjóra Sjúkra­trygginga Ís­lands falið að semja um kaup á þjónustu fyrir um­rætt við­bótar­fram­lag – heildar­upp­hæðin 150 milljónir,“ skrifar Arn­þór meðal annars.

Rifjar hann upp að gerður hafi verið samningur um göngu­deildar­þjónustu í Reykja­vík og á Akur­eyri. „Það tók þrjá mánuði og þá var sagt að ekki væri hægt að greiða aftur­virkt fyrir þjónustu sem búið var að veita, þótt hún væri með öllu ó­fjár­mögnuð.“

Segir hann samninga­fundi hjá Sjúkra­tryggingum Ís­lands mjög sér­stakir. Þar sé annar aðili í ein­keypis­að­stöðu. Hinn ailinn á­kveði svo hvort sé for­svaran­legt að skrifa undir eða ekki. Skyldur Sjúkra­trygginga Ís­lands liggi í ó­ræðu gagn­virku sam­bandi við ráð­herra en ekki sjúk­lingum sem þurfi á þjónustunni að halda.

„Það sem af er þessu ári hafa Sjúkra­tryggingar Ís­lands greitt 35,5 milljónir af 150 milljón króna við­bótar­fram­laginu. Ekkert af þessum fjár­munum hefur runnið til kaupa á sjúkra­hús­þjónustu fyrir fólk með fíkn­sjúk­dóm. Bið­listi inn á Vog er lengri í dag en hann var nokkru sinni í fyrra.“