Bið Ragnars Hilmarssonar grunnskólakennara eftir liðskiptum á hné lengist stöðugt.

Ragnar hitti lækni í febrúar 2021. „Hann sagði mér að biðin eftir aðgerð gæti orðið ár en að hún ætti að verða styttri,“ rekur Ragnar. Eftir ár hafi verið sagt að aðgerðin gæti fyrst orðið í sumar eða haust. Ákveðið var að skipt yrði um vinstra hnéð á Ragnari nú í október.

„Nú var sagt að þetta yrði ekki fyrr en einhvern tímann á næsta ári,“ segir Ragnar. Hann hafi fengið þær skýringar að skortur sé á starfsfólki á Landspítalanum.

Ragnar er kvalinn og notar stundum spelkur. Hægra hnéð er einnig lélegt og er hann farið að verkja í það. Í viðleitni til að stytta biðina freistar hann þess að komast að á sjúkrahúsunum á Akranesi og á Akureyri.

„Það þýðir að ég þarf bæði að fara í viðtal við lækni á Akureyri og lækni á Akranesi og það þarf að taka myndir á báðum stöðum – það er engin samvinna þarna á milli,“ segir Ragnar og undrast samskiptaleysi sjúkrahúsanna sem hafi í för með sér aukinn kostnað og fyrirhöfn.

Ragnar notar stundum spelkur, en hægra hnéð er einnig orðið lélegt.
Fréttablaðið/Valli

Kveðst Ragnar hafa frétt að hafi fólk ekki fengið slíka aðgerð innan þriggja mánaða eigi það rétt á að fara til útlanda í aðgerð á kostnað Sjúkratrygginga Íslands. Sé sá kostnaður margfalt meiri en þær 1,2 milljónir króna sem hann þyrfti að greiða fyrir sömu aðgerð hjá Klíníkinni í Reykjavík. Ríkið vilji hins vegar ekki greiða fyrir slíkar aðgerðir á Klíníkinni eins og áður hefur komið fram í fréttum.

„Bæklunarlæknirinn er búinn að senda beiðni á Sjúkratryggingar,“ segir Ragnar sem kveðst nota mikið af verkjalyfjum. Hann skilji ekki hví ríkið vilji ekki greiða fyrir aðgerð á Klíníkinni þar sem hægt væri að komast fljótt að með mun minni tilkostnaði fyrir ríkissjóð.

„Ég hef rætt við Willum heilbrigðisráðherra. Hann segist vera að vinna í þessu á fullu. Það er afar skrítið að við séum með Klíník og hæft fólk sem gæti stytt biðlistana en þeir séu ekki tilbúnir að borga fyrir það en til í að borga fyrir þetta á einkasjúkrahúsum erlendis.“

Að sögn Andra Ólafssonar, upplýsingafulltrúa á Landspítalanum, lengdust biðlistar í nánast öllum aðgerðaflokkum gríðarlega í Covid. Ekki hafi tekist nægilega vel að stytta listana.

„Þegar verið er að vinna biðlistana niður ræður bráðleiki för. Þá hefur lífsógnandi ástand meiri forgang enn annað,“ segir Andri.