Þorgrímur Kári Snævarr
Fimmtudagur 2. júní 2022
05.00 GMT

Trans fólk á Íslandi bíður lengi eftir kynleiðréttandi eða kynstaðfestandi skurðaðgerðum. Nokkrar tegundir slíkra aðgerða standa trans körlum til boða og sálfræðingur trans teymis Landspítala telur heilbrigðisþjónustuna færa um að sinna þeim.

„Biðtíminn er orðinn svo svakalegur að fólk veit varla lengur hvað það á að gera.“ Þetta segir Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna ‘78, um biðtíma trans fólks á Íslandi eftir kynleiðréttandi skurðaðgerðum.

Fréttablaðið ræddi fyrr í vikunni við Snævar Óðin Pálsson, trans karlmann sem sagði biðtíma eftir lífsnauðsynlegri lokaaðgerð „óboðlegan“. Meðalbiðtíminn hefur lengst mikið síðustu þrjú árin, úr 6,6 mánuðum árið 2019 í 31,1 mánuð árið 2021.

„Við höfum verið að pressa á það að trans fólk, sérstaklega það sem er að fara í neðanaðgerðir, eða jafnvel ofanaðgerð, viti hvenær þau mega eiga von á þjónustu,“ sagði Daníel. „Við þurfum að vita hve lengi þau þurfa að bíða því þetta hefur svo gríðarleg áhrif á alla heilsu og getur haft afleiðingar; félagslega einangrun, kvíða, sjálfsvígshugsanir.

Eitt foreldri sem var í viðtali komst svo að orði að annaðhvort ætti hún dáinn son eða lifandi dóttur. Það eru fleiri aðstandendur sem tala svona. Fólk er komið að niðurlotum.“

Valkostir við kynleiðréttingu

Skurðaðgerðum til kynleiðréttingar eða kynstaðfestingar er almennt skipt í tvo hópa, ofanaðgerðir og neðanaðgerðir. Áður en skurðaðgerð er framkvæmd gengst viðkomandi jafnan undir hormónameðferð. Að henni lokinni er hægt að velja á milli nokkurra tegunda skurðaðgerða. Þegar um er að ræða kynleiðréttingu trans karls er yfirleitt gert brjóstnám þar sem brjóstvefir undir húðinni eru fjarlægðir og lögun og staðsetningu geirvartanna breytt. Karlhormónameðferðin örvar svo vöxt á bringuhári.

Neðri skurðaðgerðir ganga aðallega út á breytingar á kynfærum, sér í lagi með legnámi sem ýmist er gert að hluta eða í heild. Í legnámi að hluta er eingöngu legið sjálft fjarlægt en þegar lengra er gengið er leghálsinn einnig fjarlægður. Þegar lengst er farið í skurðaðgerð á kynfærum við kynleiðréttingu er einnig hægt að fjarlægja eggjastokkana og eggjaleiðarana.

Nýr limur með aðgerð

Með frekari skurðaðgerð er hægt að byggja nýtt typpi úr snípnum. Þessi aðferð nefnist á ensku medoidoplasty en gæti útlagst sem uppbygging smáreðurs eða uppbygging á typpi með framlengingu þvagrásar. Aðferðin felst í því að stækka snípinn með hormónagjöf. Í aðgerðinni eru leggöngin fjarlægð, þvagrásin er lengd og hún lögð í gegnum nýja typpið. Í skurðaðgerðinni eru vefir sem teknir eru úr skapabörmum í kringum píkuna eða hlutum legganganna notaðir til þess að gera lengri þvagrás. Þetta geri manneskjunni kleift að pissa standandi. Kostur við þessa aðferð er að með typpi sem byggt er úr snípnum getur karlinn hlotið holdris. Hins vegar er typpi sem byggt er með þessum hætti yfirleitt of smátt til þess að hægt sé að stunda kynmök um leggöng með því.

Önnur aðferð við byggingu nýs typpis felst í því að nota ágrædda húð annars staðar að úr líkamanum. Sú aðferð heitir á ensku phalloplasty en gæti útlagst á íslensku sem uppbygging á typpi með flipa. Húðin er þá yfirleitt tekin úr framhandlegg, mitti, læri eða kvið. Með þessari aðferð verður typpið stærra en ef það væri búið til með umbreytingu á sníp. Hins vegar er holdris ekki mögulegt með typpi af þessu tagi nema með reðurígræði í annarri skurðaðgerð. Þessi aðferð er yfirleitt dýrari en sú fyrri og til þess að fullkomna hana þarf að gangast undir fleiri skurðaðgerðir.

Í sumum tilvikum er einnig gengist undir aðgerð til að skapa pung. Í slíkri aðgerð er skapabörmum hliðrað til þess að búa til punginn og eistum úr sílikoni komið fyrir í honum.

Bataferli eftir kynleiðréttingaraðgerð af þessu tagi getur tekið nokkurn tíma og skiptir heilsa og lífsstíll viðkomandi þá nokkru. Yfirleitt þarf viðkomandi að dvelja á spítala í nokkra daga og forðast síðan líkamlega áreynslu í um sex vikur, auk þess sem þurfi jafnan að notast við þvaglegg í þrjár eða fjórar vikur eftir lengingu á þvagrásinni.

Þurfi ekki að fara utan

Daníel bendir á að samkvæmt McKinsey-skýrslunni um ástand Landspítala, sem skilað var til heilbrigðisráðuneytisins haustið 2020, sé skurðstofunýting aðeins í kringum 52 til 53 prósent.

„Okkur vantar ekki skurðstofur, okkur vantar fólk. Það er mannekla. Önnur rými á spítalanum eru mjög vel nýtt ef ekki yfirfull. Það er munur á því að komast inn á skurðstofu eða ekki.“

Elsa Bára Traustadóttir, sálfræðingur hjá trans teymi Landspítalans, segist ekki kannast við að trans karlar hafi þurft að leita út fyrir landsteinana að kynleiðréttingar­aðgerð, þrátt fyrir langa biðtíma.

„Fólk í þessum hópi virðist ekki hafa fjárráð til þess, eða þau bara kjósa að vera heima og fá þjónustu á sínu móðurmáli.“

Ekki „annars flokks aðgerðir“

Daníel gerði athugasemd við það að kynleiðréttingaraðgerðir væru flokkaðar sem lýtaaðgerðir hjá Landspítalanum þar sem um væri að ræða lífsnauðsynlegar aðgerðir. Elsa Bára segir þessa flokkun þó ekki hafa haft áhrif á forgangsröðun skurðaðgerðanna. „Það er ekki þannig að spítalinn líti á þetta sem annars flokks aðgerðir eða setji þetta fólk aftast. Það hefur ekki verið aðgengi að skurðstofum. Það er líka eins og hálfs árs biðlisti eftir mjaðmaaðgerð. Skurðstofur hafa ekki verið opnar, í Covid var mjög lítið af stofum og bara bráðnauðsynlegar aðgerðir voru gerðar. Við í trans teyminu myndum gjarnan vilja hafa meiri aðgang að skurðstofum og hafa jafnvel fasta skurðstofudaga á ári, en við höfum það ekki í dag.“

Elsa Bára segir íslensku heilbrigðisþjónustuna vera því starfi vel vaxin að gera þessar aðgerðir þegar rými er til þess.

„Framan af fengum við sérfræðinga erlendis frá til að gera aðgerðirnar en síðan hefur Hannes Sigurjónsson lýtalæknir verið að gera þær eftir að hann flutti aftur hingað frá Svíþjóð. Við höfum fagþekkingu til að gera þær. Þær eru misvinsælar, það er meiri eftirspurn eftir phalloplasty [uppbyggingu reðurs með flipa] en hinu. Og svo kjósa sumir trans karlar að fara bara alls ekki í aðgerð.“

Daníel E. Arnarson, framkvæmdastjóri Samtakanna ‘78.
Elsa Bára Traustadóttir, sálfræðingur hjá trans teymi Landspítalans.
Athugasemdir