„Á meðan þjóðin tókst á við COVID á mjög árangurs­ríkan hátt fór megnið af öðrum lækningum í bið meðal annars allar val­að­gerðir, hvort sem það var á sjúkra­húsum eða úti í bæ,“ segir Hjálmar Þor­steins­son, bæklunar­skurð­læknir hjá Klíníkinni Ár­múla.

Hefð­bundnum komum til heimilis­lækna fækkaði einnig í far­aldrinum og því er ekki búið að senda tilvísanir fyrir fólk sem hefur verið að veikjast af öðrum sjúk­dómum. „Þetta er það sem við köllum inn­byggða skuld í heil­brigðis­kerfinu,“ segir Hjálmar og bætir við að skuldin sem varð til í vor muni birtast á næstu mánuðum.

„Við höfum hingað til lokað skurð­stofunum í fimm vikur á sumrin en núna lokum við bara í eina viku. Við höfum bætt við að­gerða­dögum hjá okkur í maí, bara til að vinna niður þann lista sem var hjá okkur, en við erum til­búin að að­stoða við aðrar val­að­gerðir ef á­hugi er fyrir hendi hjá ríkinu,“ segir Hjálmar.

Klíníkin fram­kvæmir allar hefð­bundnar að­gerðir sem eru á samningi sér­fræði­lækna við Sjúkra­tryggingar Ís­lands, það er al­mennar skurð­lækningar, bæklunar­að­gerðir, æða­skurð­lækningar og vissar tegundir brjósta- og lýta­að­gerða. „Svo er okkar sér­staða þessar stærri að­gerðir þar sem sjúk­lingur leggst inn í kjöl­far að­gerðarinnar, sem eru lið­skipta­að­gerðir eða efna­skipta­að­gerðir,“ segir Hjálmar.

Um 4.000 ein­staklingar eru á bið­lista eftir að­gerðum hjá Land­spítalanum um þessar mundir en Vig­dís Hall­gríms­dóttir, for­stöðu­maður skurð­stofu- og gjör­gæslu­kjarna, segir lík­legt að þeim muni fjölga.

„Við erum að skoða hvað við getum gert. Við þurfum yfir­leitt að draga að­eins úr starf­seminni yfir sumar­tímann svo starfs­fólkið okkar geti farið í sumar­frí en við erum að­eins að auka við okkur núna til að vera með fleiri skurð­stofur opnar, í byrjun og í lok sumars,“ segir Vig­dís í sam­tali við Frétta­blaðið.

Hún segir langflesta komast í að­gerðir innan fjögurra mánaða. Lengsti bið­tíminn er hins vegar eftir lið­skipta­að­gerðum en um fimm og hálfs mánaðar bið er eftir hné­að­gerð og um sex og hálfs mánaðar bið eftir mjaðma­að­gerð.

Dag­ný Jóns­dóttir, fram­kvæmda­stjóri Orku­hússins, segir að bið­listar hjá Orku­húsinu hafi einnig lengst til muna á síðustu mánuðum. „Allar að­gerðir sem við fram­kvæmum töfðust um þann tíma sem var lokað. Það sem við höfum reynt að gera núna til að höggva á bið­listann er að við erum að vinna lengur á daginn. Við höfum líka verið að bæta inn laugar­degi til að leysa sér­stak­lega öll akút vanda­málin sem biðu,“ segir Dagný og bætir við að óvissan hjá sjúklingum er mikil.

„Það er rosa­legt síma­á­lag út af fólki sem er í ó­vissu um hve­nær það kemst í að­gerð. Það er kannski sárt og kvalið, búið að bíða lengi og þarf núna kannski að bíða enn lengur,“ segir Dag­ný. Orkuhúsið tók tvo daga innan samkomubannstímabilsins til þess að framkvæma bráðaaðgerðir. Á venjulegum degi núna eru framkvæmdar að meðaltali sex til sjö aðgerðir á hverri skurðstofu Orkuhússins en þær eru fjórar.