„Það er fólkið á Haítí sem er fórnarlambið í þessum hamförum,“ segir Nadege Francois, haítísk kona með íslensk ríkisfang, um jarðskjálfta sem skall nýlega á Haítí. Jarðskjálftinn, sem skók karabíska eyríkið þann 14. ágúst, var 7,2 að stærð. Samkvæmt opinberum talningum hafa næstum 2.000 andlát verið staðfest og hátt í 10.000 manns hafa slasast. Jarðskjálftinn er af svipaðri stærðargráðu og skjálftinn á Haítí árið 2010, sem olli gríðarlegri eyðileggingu og kostaði hundruðir þúsunda landsmanna líf sín.

„Ég hef sjálf misst svo mikið,“ segir Nadege. „Í jarðskjálftanum 2010 missti ég frænku mína og fjórar systur, þar á meðal tvíburasystur mína. Ég missti nánast vitið af sorg því tvíburasystir mín var besti vinur minn. Enginn hjálpaði okkur. Hjálparaðilar og stjórnvöld gerðu ekki það sem þurfti að gera fyrir fólkið. Haítíbúar þurftu sjálfir að endurbyggja húsin sín á meðan milljónum var varið í að byggja fín sumarhús.“

Nadege hefur búið á Íslandi frá árinu 2008. Áður hafði hún flutt frá Haítí til Bahamaeyja en hafði verið vísað aftur til Haítí. Síðan ferðaðist hún til dóminísku höfuðborgarinnar Santó Dómingó, þar sem hún kynntist íslenskum karlmanni sem hún giftist síðar og eignaðist börn með. „Þegar ég kom til Íslands var ekki tekið við mér í skóla og maðurinn minn hafði ekki peninga til að styðja mig til náms. Ég gat þó gengið í vinnuskóla og lært eitt og annað,“ segir hún.

Þegar jarðskjálftinn 2010 reið yfir Haítí var Nadege stödd á Íslandi og stóð á öndinni á meðan hún beið eftir fréttum af fjölskyldu sinni. „Ég missti svo marga ættingja að ég varð veik. Ég var send á sjúkrahús og get ekki einu sinni talað. Ég var í losti og gat bara velt fyrir mér hvernig svona lagað gæti gerst. Ég vildi hjálpa fjölskyldu minni og tók mér því vinnu á veitingahúsi til að geta sent peninga til Haítí en ég gat ekki unnið þar lengi. Ég gat ekki hætt að gráta þegar ég talaði um ástandið heima og ég græt ennþá þegar ég tala um þetta.“

Nadege er núna stödd á Haítí og fékk því að upplifa jarðskjálftann af eigin raun. Hún hafði farið til Haítí vegna andláts föður síns, sem bjó um skeið með henni á Íslandi en sneri nýlega heim til Haítí. Nadege hefur eytt miklu af eigin fé til þess að hjálpa fólkinu í heimaþorpi sínu nærri borginni Jérémie, meðal annars með því að kaupa andlitsgrímur til að koma í veg fyrir Covid-fjöldasmit í flóttamannabúðum þeirra sem hafa misst heimili sín.

Haítar byggja sér skýli nálægt borginni Jérémie eftir jarðskjálftann.
Fréttablaðið/Aðsent

„Ríkisstjórnin er ekki að gera neitt,“ segir Nadege. „Forsetinn var drepinn og nú getur stjórnin ekkert gert. Við leitum til Dóminíska lýðveldisins til hjálpar en þeir vísa okkur burt ef við förum yfir landamærin. Ef Dóminíkar finna mann úti á götum segja þeir manni að fara aftur til Haítí og henda manni til baka eins og rusli niður í gil.“

Árið 2010 hafði Nadege samband við Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi forsætisráðherra, til þess að vekja athygli á harmleiknum á Haítí og biðja um hjálp fyrir þjóð sína. Íslendingar voru með fyrstu löndunum sem sendu aðstoð til Haítí það ár. Nú hefur Nadege með hjálp lögfræðingsins Þuríðar Halldórsdóttur nálgast Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra, Ásmund Einar Daðason félagsmálaráðherra og íslenska Rauða krossinn til þess að biðja um hjálp.

Bygging í rústum eftir jarðskjálftann á Haítí.
Fréttablaðið/Aðsent

Nadege lagði áherslu á að skortur væri á nauðsynjavörum á Haítí eins og hjúkrunarvörum, tjöldum og klæðnaði og biðlaði til Íslendinga að safna vörum sem gætu hjálpað Haítum að lifa af hitabeltisstorma sem hafa skollið á landinu í kjölfar jarðskjálftans. Taldi hún nauðsynlegt að koma þessum birgðum beint í hendur Haítímanna þar sem ríkisstjórnin væri líklegri til að selja vörurnar en að koma þeim í hendur þeirra sem þær þyrftu. Þá biðlaði hún til Íslendinga að taka við flóttafólki frá Haítí sem ætti ekki í önnur hús að venda.

„Ég græt og ég græt, og ég get ekki einu sinni borðað því þegar svona margir eru hjálpar þurfi hefur maður ekki matarlyst.“