Upp­lýsinga­full­trúi Slysa­varna­fé­lagsins Lands­bjargar vonar að fólk fari var­lega og taki mark á veður­spám, en tölu­verðri úr­komu er spáð í dag víða um allt land. Gul við­vörun hefur verið gefin út fyrir Faxa­flóa, Strandir, Norður­land vestra, Norður­land Eystra, Suð­austur­land og Mið­há­lendi.

Ferða­menn og annað úti­vistar­fólk á mið­há­lendi er beðið um að sýna var­kárni og fylgjast vel með veður­spám, en búast má við snörpum og var­huga­verðum vind­hviðum við fjöll og sand­foki.

Þá gaf lög­reglan á höfuð­borgar­svæðinu út til­kynningu í morgun að biðja fólk um að huga að lausa­munum til að koma í veg fyrir foktjón.

Mynd/skjáskot

Biður fólk um að fara varlega og taka mark á verðurspám

„Við erum til­búinn að bregðast við á þeim lands­hlutum þar sem veðrið er verst,“ segir Davíð Már Bjarna­son, upp­lýsinga­full­trúi Slysa­varna­fé­lagsins Lands­bjargar.

Hann segir að ekki hafi borist mikið af út­köllum vegna ó­veðurs það sem af er dags, en hann vonar að fólk fari var­lega og taki mark á veður­spám.

„Seint í gær­kvöld og snemma í nótt fórum við í tvö út­köll vegna vélar­vana báta. Annars vegar á Pat­reks­firði fyrir mið­nætti og svo seinna á Seyðis­firði. Það var ekki talinn mikil hætta á ferðum en báðir bátarnir voru tölu­vert frá landi. Þannig það ar farið og bátarnir sóttir og þeim komið í land, segir Davíð.“

Hann segir að í morgun hafi borist út­kall frá Fimm­vörðu­hálsi. „Síðan rétt fyrir sex í morgun barst til­kynning frá tveimur göngu­konum á Fimm­vörðu­hálsi sem voru veður­tepptar í tjaldi. Þær voru á göngu á svæðinu og ekki verið undir­búnar að takast á við veðrið í nótt. Það var mikill vindur og rigning eins og gerist best á ís­landi,“ segir Davíð, en enginn slasaðist og eru konurnar tvær núna á leið í bæinn.

„Við getum upplifað allar tegundir af veðri á einum degi.

„Við erum vön því að það sé mikið af út­köllum á sumrin sem snúast um að að­stoða ferða­langa, bæði ís­lenska og er­lenda. Það má alveg búast við því að í dag verði ein­hver út­köll. En ég vona að fólk hafi fengið við­varanirnar og tekið mark á þeim. Náttúran er bara þannig að það breytast að­stæður fljótt og það er mikil­vægt að fólk sem er að ferðast sé vel undir­búið og fylgist vel með upp­lýsingum um færð og taki mark á því,“ segir Davíð.

„Verum vel búinn þegar við förum að ferðast um landið því við getum upp­lifað allar tegundir af veðri á einum degi.“

Gul við­vörun hefur verið gefin út víða um land.
Mynd/vedur.is