Upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar vonar að fólk fari varlega og taki mark á veðurspám, en töluverðri úrkomu er spáð í dag víða um allt land. Gul viðvörun hefur verið gefin út fyrir Faxaflóa, Strandir, Norðurland vestra, Norðurland Eystra, Suðausturland og Miðhálendi.
Ferðamenn og annað útivistarfólk á miðhálendi er beðið um að sýna varkárni og fylgjast vel með veðurspám, en búast má við snörpum og varhugaverðum vindhviðum við fjöll og sandfoki.
Þá gaf lögreglan á höfuðborgarsvæðinu út tilkynningu í morgun að biðja fólk um að huga að lausamunum til að koma í veg fyrir foktjón.

Biður fólk um að fara varlega og taka mark á verðurspám
„Við erum tilbúinn að bregðast við á þeim landshlutum þar sem veðrið er verst,“ segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar.
Hann segir að ekki hafi borist mikið af útköllum vegna óveðurs það sem af er dags, en hann vonar að fólk fari varlega og taki mark á veðurspám.
„Seint í gærkvöld og snemma í nótt fórum við í tvö útköll vegna vélarvana báta. Annars vegar á Patreksfirði fyrir miðnætti og svo seinna á Seyðisfirði. Það var ekki talinn mikil hætta á ferðum en báðir bátarnir voru töluvert frá landi. Þannig það ar farið og bátarnir sóttir og þeim komið í land, segir Davíð.“
Hann segir að í morgun hafi borist útkall frá Fimmvörðuhálsi. „Síðan rétt fyrir sex í morgun barst tilkynning frá tveimur göngukonum á Fimmvörðuhálsi sem voru veðurtepptar í tjaldi. Þær voru á göngu á svæðinu og ekki verið undirbúnar að takast á við veðrið í nótt. Það var mikill vindur og rigning eins og gerist best á íslandi,“ segir Davíð, en enginn slasaðist og eru konurnar tvær núna á leið í bæinn.
„Við getum upplifað allar tegundir af veðri á einum degi.
„Við erum vön því að það sé mikið af útköllum á sumrin sem snúast um að aðstoða ferðalanga, bæði íslenska og erlenda. Það má alveg búast við því að í dag verði einhver útköll. En ég vona að fólk hafi fengið viðvaranirnar og tekið mark á þeim. Náttúran er bara þannig að það breytast aðstæður fljótt og það er mikilvægt að fólk sem er að ferðast sé vel undirbúið og fylgist vel með upplýsingum um færð og taki mark á því,“ segir Davíð.
„Verum vel búinn þegar við förum að ferðast um landið því við getum upplifað allar tegundir af veðri á einum degi.“
