Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir ekki vandræðalegt fyrir sig sem formann flokks sem kennir sig við umhverfisvernd að hún hafi sent Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, bréf þar sem farið er fram á fríar losunarheimildir í flugi sem teygir sig lengra en 500 kílómetra frá Íslandi.

Bréfið er viðbrögð við fyrirhuguðum breytingum ESB um aukna skattlagningu vegna losunar gróðurhúsalofttegunda í flugi. Tillögurnar koma sérlega illa við Ísland efnahagslega.

Katrín skrifar í bréfinu að Ísland styðji markmið áætlunar ESB um að minnka losun um 55 prósent fyrir árið 2030 en segist hafa þungar áhyggjur af tillögum um losun vegna flugs sem flokkað er undir ETS, viðskiptakerfi ESB.

„Þetta bréf snýr eingöngu að flugsamgöngum,“ segir Katrín í samtali við Fréttablaðið. „Tilgangur breytinganna er að beina fólki í lestir eða almenningssamgöngur í stað þess að fara í flug. Við Íslendingar erum aftur á móti með þá sérstöðu að við getum ekki nýtt aðra samgöngukosti en flug frá landinu.“

Katrín segir að engar beinharðar umhverfisvænar lausnir hafi komið fram er varði flugvélaeldsneyti í lengri flugferðum. „Þessi aðferðafræði bitnar því hlutfallslega verr á okkur en nokkru öðru landi.“

ETS er meginstjórntæki ESB á sviði loftslagsmála, ætlað að skapa hagrænan hvata í þeim tilgangi að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Ef tillögur ESB verða að veruleika gætu áhrifin orðið mjög alvarleg fyrir flugiðnað Íslands og efnahag þjóðarinnar. Aukinn kostnaður vegna umhverfisskatta yrði íþyngjandi fyrir flugfélög með aðsetur á Íslandi að því er segir í bréfi Katrínar. Breytingarnar skapi óhagræði í samkeppni flugfélaga, staða alþjóðaflugvallarins í Keflavík kunni að skerðast verulega og neikvæð áhrif orðið á tengiflug.

„Sem eyja í Norður-Atlantshafi er Ísland mjög háð flugi,“ skrifar Katrín í bréfinu sem barst forseta framkvæmdastjórnar ESB í fyrrasumar.

Orðið „hættuástand“ er notað í bréfi Katrínar og rætt um alvarlegar afleiðingar fyrir efnahag og tengsl Íslands við önnur lönd. Um 14 prósent þjóðarframleiðslunnar eru háð flugiðnaði hér á landi.

Í skjölum sem Katrín sendir með bréfinu fylgja nokkrar sviðsmyndir, gröf sem renna stoðum undir þá staðhæfingu að breytingarnar bitni harðast á Íslandi.

„Nei, það tel ég ekki vera,“ segir Katrín, spurð hvort það sé vandræðalegt fyrir hana sem formann flokks sem kennir sig við umhverfisvernd að falast eftir undanþágu frá aðgerð sem ætlað er að minnka losun og hamla gegn hlýnun loftslags.

Forsætisráðherra segir að ef hún gæti sagt landsmönnum að taka lest eða strætó þegar við ferðumst til útlanda kynni málið að horfa öðruvísi við.