Íslendingar í Osló í Noregi eru beðnir um að hafa samband við neyðarnúmer borgaraþjónustu ef þörf er á aðstoð vegna skotárásarinnar sem átti sér stað í miðborg Oslóar í nótt.

Þá er biðlað til fólks að láta aðstandendur vita ef allt er í lagi.

Íslenska sendiráðið í Osló birti stöðuuppfærslu á Facebook þar sem þessum skilaboðum er komið á framfæri.

Sendiráðið segist fylgjast vel með framvindu mála og er fólk beðið um að virða lokanir og tilmæli yfirvalda ásamt því að fylgjast vel með staðbundnum fjölmiðlum.

Mikið álag sé á símkerfi borgarinnar og er fólk hvatt til að nota samfélagsmiðla til að láta vita af sér.

Mikil sorg ríkir vegna skotárásarinnar sem er nú rannsökuð sem hryðjuverkaárás.
Fréttablaðið/EPA-EFE

Ítrekað komist í kast við lögin

Greint hefur verið frá skotárásinni sem átti sér stað í miðborg Oslóar í nótt. Tveir létust og hátt í tuttugu manns særðust í árásinni.

Árásin hófst fyrir utan skemmtistaðinn London Pub sem er vinsæll samkomustaður hinsegin fólks.

Árásarmaðurinn var handtekinn skammt frá vettvangi í nótt en hann er 42 ára norskur ríkisborgari sem kom til Noregs sem flóttamaður frá Íran á barnsaldri.

VG greinir frá.

Samkvæmt frétt VG hefur maðurinn ítrekað komist í kast við lögin, meðal annars fyrir grófa líkamsárás og vörslu fíkniefna.

Á blaðamannafundi í morgun sagði lögreglan að ein möguleg útskýring á árásinni væri tengd geðrænu ástandi mannsins.

Gleðigöngunni frestað vegna málsins

Gleðiganga Oslóar, Oslo Pride, átti að fara fram í dag en hefur nú verið aflýst vegna skotárásarinnar að ráðum lögreglu.

Í tilkynningu sem skipuleggjendur gleðigöngunnar sendu frá sér á Facebook í morgun kemur fram að öll þau sem ætluðu að fjölmenna í gönguna séu beðin um að halda sig heima og fara vel með sig.

Fréttablaðið/Skjáskot af Facebook