Bandaríska lyfja- og matvælaeftirlitið (FDA) hefur biðlað til fólks að taka ekki þátt í tískubylgju á samskiptamiðlinum TikTok að nota flensulyf við eldamennsku á kjúklingi.

Fyrr á þessu ári fór fyrst að bera á því að fólk á samskiptamiðlum væri að elda kjúkling með flensulyfjum sem fást án lyfseðils. Flestir nota NyQuil sem er afar vinsælt flensulyf.

Lyfja- og matvælaeftirlitið sendi frá sér áminningu um hætturnar sem fylgja því að nýta lyfin á þennan máta.

„Með því að sjóða lyfið ertu að auka styrkleika þess og breyta eiginleikum. Jafnvel þótt að einstaklingar borði ekki kjúklinginn myndast eiturgufa sem getur skaðað lungnastarfsemi einstaklinga.“

Í sömu tilkynningu sendi FDA frá sér áminningu um hættur þess að taka þátt í annarri tískubylgju sem snýst um að innbyrða ofnæmistöflur í óhóflegu magni til að komast í vímu.