Mikið hefur borið á því að einstaklingar með Covid-19 fari sjálfir í apótek eftir lyfjum, þetta á einnig við um einstaklinga með einkenni og smitandi einstaklinga. Lyfjastofnun biðlar til einstaklinga sem eru með einkenni Covid-19 að mæta ekki í apótek heldur senda fyrir sig aðstandanda með gilt umboð til að sækja lyf.

Samkvæmt tilmælum sóttvarnayfirvalda er fólki sem greinist með COVID-19 og er með öndunarfæraeinkenni og hita, beðið um að halda sig til hlés í að minnsta kosti fimm daga frá greiningu.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur mikið borið á því að einstaklingar með Covid-19 hafi komið í apóteki í gær og í dag til að versla Parkódín. Þetta valdi starfsfólki apóteka óþægindum og auki líkur á því að það smitist af Covid-19.

Heimildin veitt að beiðni Heilsugæslunnar

Nýlega var veitt tímabundin heimild til að selja sjúklingum með Covid Parkódín án lyfjaávísunar. Parkódín hefur meðal annars hóstastillandi áhrif. Heimildin gildir til 18. apríl og var veitt að beiðni Heilsugæslunnar þar sem álag hefur verið mikið vegna faraldursins.

Einstaklingar 18 ára og eldri mega samkvæmt upplýsingum frá Lyfjastofnun kaupa tíu töflur af 500mg./10 mg, af Parkódíni framvísi þeir vottorði um Covid-19 smit út Heilsuveru sem ekki er eldra en tíu daga gamalt.

Í fyrstu voru veittar upplýsingar um að vottorð mætti vera mánaðar gamalt, því hefur verið breytt og má það nú vera tíu daga gamalt. Þá áréttar Lyfjastofnun að einstaklingar þurfi að vera orðnir 18 ára til þess að fá afgreitt Parkódín.

Sæki annar en sjúklingurinn Parkódín í apótek þarf hann að hafa gilt umboð til að sækja lyf fyrir viðkomandi sem nálgast má í heilsuveru ásamt því að hafa meðferðis vottorð um staðfest COVID-19 smit þess aðila sem sótt er fyrir. Vottorðið má finna í Heilsuveru og má ekki vera eldra en 10 daga gamalt.

Parkódín ófánlegt í tíu töflu pakningum

Mikil ásókn hefur verið í Parkódín í apótekum í dag og í gær og er nú lyfið í tíu töflu pakkningum. ófáanlegt. Samkvæmt Lyfjastofnun er starfsfólki apóteka, í slíkum tilfellum, heimilt að rjúfa pakkningar og skipta í smærri einingar eða umpakka þeim við afgreiðslu til að koma í veg fyrir lyfjaskort. Því gætu lyfjanotendur orðið varir við að fá Parkódín afgreitt í óhefðbundnum umbúðum.

Unnið er að breytingu á vinnslukerfi lyfjaafgreiðslu í þá veru, að lyfjafræðingar apótekanna geti séð fyrri Parkódín-afgreiðslur til sjúklings, jafnvel þótt lyfjaávísunar sé ekki þörf.