Hrað­frysti­húsið Gunn­vör, sem á togarann Júlíus Geir­munds­son, hefur beðið alla skip­verjana, sem voru um borð þegar hóp­smit kom upp í togaranum, ein­lægrar af­sökunar á mis­tökum sínum. Út­gerðin segist hafa átt að til­kynna Land­helgis­gæslunni mun fyrr um að grunur lægi á kórónu­veiru­smiti um borð.

Líkt og greint hefur verið frá síðustu daga hélt togarinn á­fram þriggja vikna veiði­túr sínum eftir að veikindi komu upp innan á­hafnarinnar á öðrum degi. Sam­kvæmt leið­beiningum, sem bæði Sam­tök fyrir­tækja í sjávar­út­vegi og stéttar­fé­lög sjó­manna komu sér saman um í upp­hafi far­aldursins, hefði út­gerðin átt að til­kynna veikindin til Land­helgis­gæslunnar um leið og þau komu upp.

Skip­verjarnir hafa lýst á­standinu á togaranum sem skelfi­legu en þeir veiktust einn af öðrum og á endanum smituðust 22 af 25 manna á­höfninni af kórónu­veirunni. Þeir sem voru veikir þurftu margir að halda vinnu á­fram þangað til þeir gátu ekki meir og þá segja þeir lyfja­birgðir ekki hafa verið nægar um borð. Þannig hafi að­eins þeir veikustu fengið verkja­lyf því ekki var nóg til af þeim fyrir alla.

„Það var aldrei ætlun út­gerðar eða skip­stjóra að stefna heilsu og lífi á­hafnar skipsins í hættu og fyrir­tækinu þykir þung­bært að sitja undir á­sökunum um að ekki sé hugað nógu vel að heilsu og öryggi starfs­manna,“ segir í til­kynningu frá Einari Val Kristjáns­syni, fram­kvæmda­stjóra Hrað­frysti­hússins Gunn­varar.

„Í­trekað skal að fyrir­tækinu þykir miður að ekki hafi verið brugðist við með réttum og við­eig­andi hætti. Nú er verk­efnið að styðja við þá á­hafnar­með­limi sem glíma við veikindi og byggja upp á ný það traust sem hefur glatast á milli á­hafnar og fyrir­tækisins vegna at­viksins.“

Vilja lögreglurannsókn

Skip­verjarnir greindu einnig frá því á föstudaginn hvernig þeim var bannað að ræða veikindi sín við aðra en fjöl­skyldu­með­limi og alls ekki við frétta­menn eða setja neitt inn á sam­fé­lags­miðla um þau.

Verka­lýðs­fé­lag Vest­firðinga, Sjó­manna­fé­lag Ís­lands og Al­þýðu­sam­band Ís­lands hafa kallað eftir lög­reglu­rann­sókn á málinu og segja að út­gerðin hafi stefnt lífi og heilsu sjó­mannanna í hættu með því að snúa togaranum ekki í land um leið og veikindin komu upp. Lög­reglan á Vest­fjörðum rann­sakar ekki málið eins og er en hefur sagst munu skoða grund­völl fyrir slíkri rann­sókn.