Smitandi lifrar­drep er talið hafa valdið veikinda og dauða fjöl­margra kanína í Elliða­ár­dalnum upp á síð­kastið. Mat­væla­stofnun segir ís­lenskum kanínu­eig­endum að gæta þess vel að smit berist ekki í kanínur þeirra með því að kynna sér eðli sjúk­dómsins vel og hvernig hægt sé að koma í veg fyrir hann.

Mat­væla­stofnun og til­rauna­stöð Há­skóla Ís­lands að Keldum rann­saka enn smitin en bráða­birgða­niður­stöður sýndu í dag að or­sök kanínu­dauðs­fallanna væri að öllum líkindum veiru­sýking sem veldur lifrar­drepi. Sjúk­dómurinn hefur einu sinni áður komið upp á landinu, árið 2002, en tak­markaðist þá við kanínu­bú og heimils­kanínur.


Þetta er því í fyrsta sinn sem veiran greinist í villtum kanínum hér­lendis og segir Mat­væla­stofnun mikil­vægt að kanínu­eig­endur landsins gæti þess vel að smit berist ekki í kanínur þeirra.

Bóluefni væntanlegt í næstu viku


Í til­kynningu frá Mat­væla­stofnun segir að lifrar­drep í kanínum sé bráð­smitandi og ban­vænn sjúk­dómur. Honum veldur veira af gerð svo­kallaðra calici-veira en hún getur ekki smitast yfir í önnur dýr eða menn. Þrjár gerðir veirunnar eru þekktar en ekki er vitað hver þeirra herjar á kanínu­stofn landsins.


Nokkur munur er á eðli þessara tegunda veirunnar; ein þeirra veldur til dæmis ein­kenna­lausri sýkingu í ungum dýrum en önnur leggst á dýr á öllum aldri. Ein þeirra veldur þá mjög mis­jafnri dánar­tíðni, um 5% til 70% eftir til­vikum, en hinar gerðirnar draga dýrin til dauða í 80% til 90% til­vika.


Ef ein­kenni sjúk­dómsins sjást koma þau fram í hita, lystar­leysi, deyfð, kveini, öndunar­færa­ein­kennum og jafn­vel í krömpum eða lömun dýrsins. Sjúk­dómurinn dregur dýrin svo til dauða í lang­flestum til­vikum eftir um 12 til 36 tíma eftir að ein­kenni koma fram.

„Kanínu­eig­endur ættu ekki að fara á svæði þar sem hálf­villtar kanínur eru, gæta þess að önnur dýr og fólk komi í snertingu við kanínurnar og við­hafa ýtrustu smit­varnir við að­búnað, fóðrun og um­hirðu þeirra,“ segir í til­kynningunni. Bólu­efni er svo væntan­legt til landsins um leið og í ljós hefur komið af hvaða tegund veiran er en það ætti að koma í ljós í næstu viku.