Skemmti­garðar eru meðal staða sem hafa fengið að opna á ný eftir að yfir­völd í Japan af­léttu í vikunni tak­mörkunum sem höfðu verið til staðar vegna CO­VID-19 en skemmtigarðar í landinu hafa verið lokaðir frá því í febrúar. Tækja­stjórar garðanna hafa gefið út til­mæli til gesta um hvernig megi tryggja öryggi þeirra og annarra.

Að því er kemur fram í frétt CNN snúast flest til­mælin um hrein­læti og notkun á hlífðar­búnaði í á­kveðnum til­fellum auk þess sem lögð er á­hersla á að fólk haldi á­kveðinni fjar­lægð frá hvort öðru. Flest til­mælin eru frekar eðli­leg en eitt mun lík­legast reynast gestum erfitt að fylgja.

Ráðlagt er að gestir noti grímur í skemmtigörðunum.
Fréttablaðið/Getty

Halda samræðum í lágmarki

Ein til­lagan snýr nefni­lega að því að gestir skemmti­garða sem fara til að mynda í rússí­bana forðist að öskra eða hrópa meðan á ferðinni stendur, eitt­hvað sem gæti reynst flókið í ljósi þess hversu trylltir sumir rússí­banar eru. Þá er lagt til að sam­ræður séu eins stuttar og mögu­legt er.

Sam­tök skemmti­garða í Austur- og Vestur-Japan sam­þykktu til­lögurnar sem voru gerðar af fleiri en 30 tækja­stjórum í Japan. Það eru þó ekki að­eins þær til­lögur sem koma til með að gilda heldur hafa á­kveðnir skemmti­garðar einnig komið á sínum eigin reglum.

Til að mynda hefur skemmti­garðurinn Fuji-Q Hig­hland á­kveðið að opna að­eins fyrir í um­ferð í tæki sem eru utan­dyra og mega að­eins í­búar frá á­kveðnum héruðum koma í garðinn. Aðrir stórir garðar, eins og Tokyo Dis­ney­land og Uni­ver­sal Japan, eiga eftir að til­kynna hve­nær þeir koma til með að opna á ný.