Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi almannavarna, var bara rétt búin að verða vör við gosið þegar Fréttablaðið náði af henni tali nú á öðrum tímanum í dag.
Eins og alþjóð veit er gos hafið að nýju, annað árið í röð á Reykjanesskaga, þar sem kvika hefur náð upp á yfirborðið.
Í tilkynningu frá almannavörnum segir að vísindafólk sé á leiðinni á svæðið að meta gosið. Fólk er beðið um að fara með gát á svæðinu.
„Nú eru bara næstu skref að fara skoða staðsetningu og við erum í mikilli samvinnu við Veðurstofu. Væntanlega fer núna þyrla á loft til þess að taka þetta út.“
Á að loka svæðinu?
„Það er allt að fara af stað í ákvörðunum og ég held að við vinnum það í samvinnu við lögreglustjórann á Suðurnesjum. Við erum að koma okkur í viðbragðsstöður, bara eins og við þekkjum öll. Þetta er byrjað aftur.“
Gas berst frá jarðeldinum
Í fréttatilkynningu Veðurstofunni segir að gosið sé í vestanverðum Merardölum um 1,5 km norður af Stóra-Hrút og að jarðeldurinn virðist koma upp um norðuraustur suðvestur sprungu á þeim stað.
Við fyrstu skoðun á vefmyndavélum virðist kvika hafa komið upp á yfirborð klukkan átján mínútur yfir eitt eftir hádegi.
Fram kemur í tilkynningunni að gas berst frá jarðeldinum.