Sam­komu­lag hefur náðst milli ís­lenska ríkisins og Erlu Bolla­dóttur vegna gæslu­varð­halds sem Erla sætti fyrir meinta aðild að hvarfi Geir­finns Einars­sonar. Erla var sýknuð af þeim á­kærum í Hæsta­rétti 1980 en hún mátti sæta frelsis­sviptingu í tæpa átta mánuði vegna málsins. Frá þessu er greint í til­kynningu á vef for­sætis­ráðu­neytisins. Erla greindi nýverið frá því að hún væri með krabbamein og að hún ætlaði með mál sitt til Mannréttindadómstólsins.

Með til­kynningu forsætisráðuneytisins fylgir einnig yfir­lýsing frá Katrínu Jakobs­dóttur, for­sætis­ráð­herra, þar sem hún biður Erlu af­sökunar á þeirri með­ferð sem hún mátti þola og af­leiðingum hennar en hún var á tíma gæslu­varð­haldsins ung kona með korna­barn.

Í til­kynningu for­sætis­ráðu­neytisins segir enn fremur að sam­kvæmt sam­komu­laginu greiði ís­lenska ríkið Erlu Bolla­dóttur miska­bætur fyrir gæslu­varð­haldið á sama grund­velli og sak­borningum í Guð­mundar- og Geir­finns­málinu, sem síðar voru sýknaðir, voru dæmdar í Lands­rétti.

Nemur fjár­hæð miska­bótanna um 32 milljónum króna en fjár­hæðin tekur mið af þeim bótum sem Lands­réttur á­kvarðaði fyrir gæslu­varð­hald í fyrr­nefndum dómum. Alls sat Erla í gæslu­varð­haldi í 232 daga í tengslum við meinta aðild sína að hvarfi Geir­finns.

Sam­komu­lagið við Erlu Bolla­dóttur tekur ein­göngu til gæslu­varð­halds vegna rann­sóknar á hvarfi Geir­finns Einars­sonar. Dómur vegna rangra sakar­gifta stendur ó­haggaður, saman­ber niður­stöðu Endur­upp­töku­dóms frá 14. septem­ber síðast­liðnum.

Yfir­lýsing for­sætis­ráð­herra:

Hvörf þeirra Guð­mundar Einars­sonar og Geir­finns Einars­sonar hafa varpað skugga á ís­lenskt þjóð­líf um ára­tuga skeið og sett mark sitt á ævi fjöl­margra ein­stak­linga. Ó­vissu­á­standi sem sneri að sak­borningum í þessum málum var að mestu eytt með sýknu­dómi Hæsta­réttar yfir þeim sem taldir voru bera á­byrgð á manns­hvörfunum, dómum Lands­réttar um sann­gjarnar bætur þeim til handa svo og lögum nr. 128/2019, sem tryggðu bætur til að­stand­enda hinna sýknuðu sem voru látnir. Þá hafa þeir sem sýknaðir voru og að­stand­endur verið beðnir af­sökunar á því hvernig staðið var að þeirra málum og að þeir hafi verið rang­lega sak­felldir og sætt langri fangelsis­vist.

En mál þetta lýtur að fleiri sak­borningum í málunum, sem sættu rann­sókn og gæslu­varð­haldi, sem á sér vart hlið­stæðu í ís­lenskri réttar­sögu. Erla Bolla­dóttir, ung kona með korna­barn, sætti þannig gæslu­varð­haldi vegna meintrar hlut­deildar í hvarfi Geir­finns Einars­sonar frá byrjun maí­mánaðar 1976 og fram að jólum sama ár. Að­stæður sem gæslu­föngum voru búnar á þeim tíma voru sér­lega erfiðar, eins og dómar hafa stað­fest. Erla var sýknuð af á­kæru fyrir aðild að hvarfi Geir­finns Einars­sonar með dómi Hæsta­réttar 1980 og féll því ekki undir sýknu­dóm Hæsta­réttar á árinu 2018, og því ekki undir þær ráð­stafanir sem ríkið á­kvað að grípa til í kjöl­far hans. Er staða Erlu því sér­stök meðal sak­borninganna í málinu. Lengd frelsis­sviptingar hennar meðan á rann­sókn Geir­finns­málsins stóð og að­stæður sem henni og barni hennar voru búnar á þeim tíma eru for­dæma­lausar. Í því skyni að leiða til lykta þessi mál, að því er fyrrum sak­borninga varðar, þykir eðli­legt og sann­gjarnt að biðja Erlu sér­stak­lega af­sökunar á þeirri með­ferð sem hún mátti þola og af­leiðingum hennar. Þá þykir og sann­gjarnt, þó svo að langt sé um liðið, að Erla fái sam­hliða greiddar bætur vegna frelsis­sviptingar sinnar í gæslu­varð­haldi til sam­ræmis við bætur sem Lands­réttur á­kvarðaði sak­borningum sem sýknaðir voru af sökum varðandi manns­hvörfin.

Greiddu út bætur 2020

Árið 2020 greiddi ríkið út 774 milljónir til þeirra sem sýknaðir voru í Guðmundar- og Geirfinnsmálum í Hæstarétti í september 2018 og til maka og barna þeirra tveggja sem látnir eru. Um 41 milljón var greidd sama ár vegna lögmannskostnaðar.

Bótafjárhæðir

Albert Klahn Skaftason - 15 milljónir,

Guðjón Skarphéðinsson - 145 milljónir,

Kristján Viðar Júlíusson - 204 milljónir,

Aðstandendur Tryggva Rúnars Leifssonar - alls 171 milljón,

Aðstandendur Sævars Marinós Ciesielski - alls 239 milljónir.