Sak­sóknari í New York hefur kallað eftir því að Andrew Breta­prins mæti í við­tal vegna rann­sóknarinnar á mansals­hring auð­kýfingsins Jef­frey Ep­stein. Þetta sagði sak­sóknarinn á blaða­manna­fundi í gær eftir að banda­ríska al­ríkis­lög­reglan (FBI) hafði hand­tekið fyrr­verandi kærustu Ep­steins, Ghisla­ine Maxwell, í tengslum við rann­sóknina.

Vill ekki gefa neitt upp um réttarstöðu prinsins

Á blaða­manna­fundinum vildi sak­sóknarinn Audrey Strauss þó ekkert gefa upp um réttar­stöðu prinsins vegna rann­sóknarinnar. „Við myndum vilja að Andrew prins kæmi og talaði við okkur, við myndum vilja heyra hans fram­burð á málinu,“ sagði sak­sóknarinn. „Ég hef ekkert meira að segja um málið en það, að okkar dyr standa á­fram opnar og við myndum vilja að hann gæfi okkur færi á að heyra sína hlið á málinu.“

Heimildir breska miðilsins The Guar­dian herma þá að lög­fræðingar Andrews hafi þegar reynt að setja sig tvisvar í sam­band við þá sem fara með rann­sókn málsins í Banda­ríkjunum.

Epstein og Maxwell voru eitt sinn kærustupar.
Fréttablaðið/Getty

Ghisla­ine Maxwell var hand­tekin í gær en hún og Andrew Breta­prins hafa lengi verið nánir vinir. Hún kynnti prinsinn fyrir Jef­frey Ep­stein á sínum tíma. Ep­stein framdi sjálfs­morð í fanga­klefa sínum í ágúst á síðasta ári þar sem hann beið eftir réttar­höldum sínum vegna meintra kyn­ferðis­brota og mansals. Hann hafði neitað sök í málinu.

Þegar greint var frá rann­sókninni á Ep­stein eftir hand­töku hans í fyrra hrönnuðust upp á­sakanir og sögur ungra kvenna sem sögðust hafa orðið fyrir barðinu á honum. Andrew Breta­prins var í kjöl­farið sakaður um að hafa brotið þrisvar sinnum kyn­ferðis­lega á stúlku undir lög­aldri, rétt fyrir alda­mót, sem hann kynntist í gegnum Ep­stein.

Stúlkurnar treystu Maxwell

„Maxwell gegndi lykil­hlut­verki í því að hjálpa Ep­stein að sigta út, vingast við og þjálfa upp stúlkur undir lög­aldri til mansals og kyn­ferðis­brota,“ sagði sak­sóknarinn á blaða­manna­fundinum í gær. „Í ein­hverjum til­fellum tók Maxwell sjálf þátt í kyn­ferðis­brotunum. Hún lagði gildruna [fyrir stúlkurnar]. Hún þóttist vera kona sem þær gætu treyst.“

Maxwell hefur neitað sök í málinu. Ekki var vitað hvar hún hélt sig eftir hand­töku Ep­steins í júlí í fyrra fyrr en al­ríkis­lög­reglan hand­tók hana í gær. Hún var þá stödd í litlum bæ í New Hamps­hire á Eng­landi.