Af stærstu sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu er lengsta biðin eftir leikskólaplássi í Reykjavík og eru dæmi um að tveggja ára börn komist ekki að. Markmið Reykjavíkurborgar er að tryggja öllum börnum sem eru orðin 18 mánaða pláss þann 1. september ár hvert.

Í vor fór fram stór innritun þar sem tókst að bjóða öllum sem féllu undir regluna pláss og í kjölfarið var opnað á innritun barna sem fædd eru á tímabilinu mars til júní 2019. Enn eru börn á þeim aldri á biðlistum.

„Biðlistar eru mislangir eftir hverfum og einstaka leikskólum. Í einhverjum tilfellum er ekki unnt að bjóða barni pláss í þeim leikskóla sem foreldrarnir hefðu helst kosið, en þá er bent á aðra leikskóla sem hafa svigrúm til að taka inn fleiri börn,“ segir Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur.

Reykjavíkurborg er aftur á móti með lægstu gjöldin fyrir par með eitt barn. Helgi segir biðlista borgarinnar síkvika og því séu alltaf einhver börn á biðlistum, til dæmis vegna flutninga milli hverfa og til borgarinnar. Þá sé enn ekki komin nægjanleg festa í starfsmannahald hjá ýmsum leikskólum borgarinnar.

Í Kópavogi hefur börnum á öðru aldursári verið tryggt pláss. Garðabær færist nær því markmiði sínu að bjóða pláss við 12 mánaða aldur. Í Hafnarfirði er boðið upp á pláss við 15 mánaða aldur.

„Öllum börnum fæddum í júní 2019 hefur verið boðið pláss og við erum að byrja að bjóða börnum fæddum í júlí pláss. Þetta er umfram væntingar okkar og hluti af skýringunni er sú að það er betri mönnun á leikskólunum en undanfarin ár,“ segir Sigríður Björg Tómasdóttir, upplýsingafulltrúi Kópavogsbæjar. Hún bendir þó á að ekki þiggi allir plássin sem þeim er boðið, til dæmis ef ekki sé um fyrsta val foreldra að ræða.

Markmið Garðabæjar er að bjóða börnum dvöl í leikskóla þegar þau ná 12 mánaða aldri og er sveitarfélagið stöðugt að færast nær því markmiði. „Öll börn fædd 2019 fá boð um dvöl í leikskóla í haust og líklegt er að jafnvel náist að byrja að innrita einhver börn úr 2020-árganginum eftir áramót,“ segir Hulda Hauksdóttir, upplýsingastjóri Garðabæjar. Mikil hreyfing er á biðlistum í leikskóla bæjarins, meðal annars vegna flutninga í og úr bænum, enda er sveitarfélagið í örum vexti og börnum á leikskólaaldri fjölgar.

Hafnarfjarðarbær býður börnum leikskólapláss allt frá 15 mánaða aldri en raunaldur við innritun stýrist af fæðingarmánuði. Innritun á sér stað hjá sveitarfélaginu tvisvar á ári; í ágúst og febrúar. Við innritun í ágúst 2020 voru yngstu börnin fædd í maí og júní 2019 sem þýðir að hluti yngstu barnanna hafði ekki náð 15 mánaða aldri við upphaf leikskólagöngu. „Eftir innritun í ágúst voru engin börn á biðlista,“ segir Árdís Ármannsdóttir, samskiptastjóri Hafnarfjarðarbæjar.