Rúmlega 650 manns eru nú á biðlista eftir greiningu og meðferð hjá ADHD-teymi Landspítala og er biðtími um þrjú og hálft ár. Þetta kemur fram í svari spítalans við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Skjólstæðingar ADHD-teymisins fengu á dögunum bréf þar sem þeim var tjáð að biðtími hefði lengst töluvert, ásamt því að skortur væri á fagfólki í teyminu. Þá var þeim einnig tjáð að framtíð teymisins og staðsetning innan heilbrigðiskerfisins væri óljós, en unnið væri að því að finna lausn.

Í svari spítalans segir að sívaxandi eftirspurn eftir þjónustu ADHD- teymisins hafi valdið því að langir biðlistar hafi myndast. Við stofnun þess hafi verið gert ráð fyrir að teymið myndi sinna greiningu og meðferð fyrir um tvö hundruð manns árlega.

„Teymið hefur staðið við þetta markmið en raunstaðan er sú að fjöldi tilvísana til teymisins fer langt fram úr þessum fjölda á ári hverju, en árið 2020 bárust teyminu yfir 450 tilvísanir,“ segir í svarinu.

Þetta er sögð ástæða þess að biðlistinn lengist með hverju árinu og sé bið nú rúmlega þrjú og hálft ár. Þá hafi enginn geðlæknir verið starfandi í teyminu undanfarna mánuði, það lengi biðtímann enn frekar.

„Ekki er lausn í sjónmáli á þeim vanda á næstunni. Til þess að taka á þessum vanda þarf að endurskoða verkferla og mönnunarmódel teymisins. Ráðuneytið er upplýst um stöðuna,“ segir í svari spítalans. Ekki náðist í heilbrigðisráðherra við gerð fréttarinnar.

Vilhjálmur Hjálmarsson, formaður ADHD-samtakanna, segir stöðuna kolsvarta. „Staðan í dag er grafalvarleg og jafnvel lífshættuleg,“ segir hann.

„Fólk með vangreiningu, hvort sem það á endanum verður ADHD og/eða eitthvað annað, getur átt í margvíslegum vandamálum með sitt líf, það getur kostað fólk heilsuna og jafnvel lífið,“ segir Vilhjálmur og bendir á að þessi hópur sé meðal annars líklegri til að þróa með sér fíkn og vera með lægri ævitekjur en aðrir.

„Ef hins vegar fólk fær greiningu og helst sem fyrst, þá snýst dæmið við og við fáum til baka einstaklinga og samfélag sem er miklu ríkara og ekki bara af peningum, heldur fólki sem getur komið með virkilegan kraft inn í samfélagið og atvinnulífið,“ segir hann.

Vilhjálmur segir yfir þriggja ára bið eftir greiningu og meðferð ólíðandi stöðu fyrir alla. „Þetta þýðir að það er nánast ómögulegt að komast í ADHD-greiningu nema að borga allt úr eigin vasa, hvað þá að fá einhverja nánari meðferð eða stuðning, ekki einu sinni sálfræðistuðning, nema þú borgir fyrir hann sjálfur og það er mjög dýrt.“