Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, staðfesti í dag að hann mun verða viðstaddur útför Elísabetar II. Bretadrottningar. Ekki er enn vitað hvenær útförin verður haldin en dagsetningin 19. september hefur komið upp í umræðum um mögulega dagsetningu.
„Ég veit ekki enn hver smáatriðin eru en ég ætla að fara,“ sagði Biden í dag. Hann sagðist þekkja Karl III. persónulega en þeir höfðu ekki talað eftir andlát Elísabetar II.
Búist er við því að útförin fari fram í Westminster Abby, en þar var drottningin einnig krýnd árið 1953. Tvö þúsund manns geta setið í Westminster Abby en í krýningu drottningarinnar var sætunum fjölgað í átta þúsund, búist er við því að það sama verði gert við útför hennar.
Konungsfjölskyldur víða úr Evrópu munu líklegast einnig sækja útför Elísabetar, ásamt forsetum, forsætisráðherrum og sendiherrum frá Evrópu.