Joe Biden Bandaríkjaforseti segir að Jimmy Carter, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, hafi beðið sig um að halda útfararræðu þegar hann deyr. Svo virðist sem hann hafi óvart greint frá þessu.

„Ég eyddi tíma með Jimmy Carter, og hann virðist vera á lokametrunum, en þeir fundu leið til að halda honum gangandi talsvert lengur en búist var við, vegna uppgötvunar,“ hefur The Hill eftir Biden.

Hann á að hafa sagt þetta á fjáröflunarfundi Demókrataflokksins, en þar voru um það bil fjörutíu manns.

„Hann bað mig um að halda útfararræðu sína,“ bætti forsetinn við.

Í kjölfarið virtist Biden hafa gripið sjálfan sig við að deila upplýsingum sem hann átti ekki að greina frá. „Afsakið mig. Ég ætti ekki að hafa sagt þetta,“ sagði hann.

Greint var frá því í síðasta mánuði að Carter væri kominn í líknandi meðferð. Hann er 98 ára gamall, en enginn Bandaríkjaforseti hefur náð jafn háum aldri.