Joe Biden for­seti Banda­ríkjanna telur nauð­syn­legt að Donald Trump fyrr­verandi for­seti Banda­ríkjanna verði sak­sóttur fyrir em­bættis­glöp í öldunga­deild Banda­ríkja­þings.

„Ég held að þetta þurfi að gerast,“ segir Biden í sam­tali við CNN.

Biden lét orðin falla í stuttu við­tali við blaða­mann CNN á göngum Hvíta hússins. Biden sagðist með­vitaður um nei­kvæðu á­hrifin sem réttar­höldin gætu haft á þau laga­frum­vörp sem hann vill koma í gegnum þingið. Þá gætu réttarhöldin einnig tafið embættisskipanir hans.

Í sam­tali við CNN sagði Biden að hann telji að Trump verði sýknaður af öldunga­deildinni en 17 þing­menn Repúblikana þurfa að kjósa með því að sak­fella for­setann fyrr­verandi.

„Þingið hefur breyst síðan ég var þarna, en það hefur ekki breyst það mikið,“ sagði Biden sem jafn­framt telur að staðan hefði verið önnur ef Trump væri sitjandi for­seti.

Vilja tvær vikur til að undirbúa málsvörn

Full­­trúa­­deild Banda­­ríkja­þings sendi öldunga­­deildinni á­kærurnar á hendur Trumps í gær en Trump var for­m­­lega á­kærður fyrir em­bættis­glöp þann 13. janúar síðast­liðinn fyrir að hvetja til upp­­reisnar í tengslum við ó­­eirðirnar í Was­hington-borg þann 6. janúar.

Nan­cy Pelosi, for­­seti full­­trúa­­deildar Banda­­ríkja­þings, hafði verið hikandi við að senda á­kærurnar til öldunga­­deildarinnar og vildi ekki gefa upp ná­­kvæman tíma þar sem réttar­höldin innan öldunga­­deildarinnar gætu tafið skipanir Joes Biden Banda­­ríkja­­for­­seta í em­bætti.

Þá hafði Mitch McConnell, leið­­togi Repúblikana innan öldunga­­deildarinnar, óskað eftir því að teymi Trumps fengi tvær vikur frá því að á­kærurnar yrðu sendar til deildarinnar til að undir­­búa mál­flutning sinn.

Yfir­vofandi réttar­höld yfir Trump hafa sett Biden í erfiða stöðu þar sem hann hefur lofað að sam­eina þjóðina og horfa á fram á veginn.

Sam­kvæmt CNN hafa ráð­gjafar Bidens ekki verið hrifnir af því hingað til að hefja em­bættis­tíð hans á réttar­höldum gegn Trump. Nú er óttast þeir hins vegar að ef Biden stendur ekki við bakið á sam­flokks­mönnum sínum gæti það haft slæm á­hrif á Demó­krata­flokkinn.

Biden sendi yfir­lýsingu frá sér fyrr í þessum mánuði þar sem hann vonaðist eftir því að þingið gæti sinnt stjórnar­skrár­legum skyldum sínum með því að rétta yfir Trump á­samt því að taka á stóru málunum sem væru kórónu­veiran og efna­hags­á­standið.

Akærurnar gegn Trump fóru formlega frá fulltrúadeildinni til öldungadeildarinnar í gær.
Ljósmynd/AFP