Joe Biden forseti Bandaríkjanna tilkynnti í dag að Bandaríkin og þeirra bandamenn ætla að útiloka Rússland frá alþjóðaviðskiptum í refsingarskyni fyrir innrás Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta í Úkraínu.
Biden greindi frá þessu í ávarpi frá Hvíta húsinu í dag en BBC segir frá.
„Bandaríkin, bandamenn okkar og samstarfsaðilar munum halda áfram að auka efnahagslega þrýsting á Pútín og einangra Rússland enn frekar,“ sagði Biden í ávarpi sínu.
Hann bætti við að refsiaðgerðirnar væru ákveðnar í samráði við Atlantshafsbandalagið, G-7 ríkin og Evrópusambandið.

„Annað stórt högg fyrir rússneskan efnahag“
Aðgerðirnar fela meðal annars í sér algjört innflutningsbann á sjávarafurðir, vodka og demanta frá Rússlandi og þá er einnig sett á útflutningsbann á bandarískar lúxusvörur til Rússlands og Hvíta-Rússlands.
Vladimir Pútin hefur líkt efnahagsaðgerðum vesturlanda á Rússland við stríðsyfirlýsingu og hefur hann hótað að þjóðnýta allan iðnað landsins.
„Þetta er annað stórt högg fyrir rússneskan efnahag,“ sagði Biden.
Evrópusambandið ákvað einnig að banna innflutning á rússensku stáli og járni samhliða aðgerðum Bandaríkjanna.