Joe Biden, Banda­ríkja­for­seti, segir for­veri sinn í em­bætti, Donald Trump, hafa skort hug­rekki og því hafi hann brugðist hægt við þegar reiður múgur réðst á þing­húsið í Banda­ríkjunum þann 6. janúar 2021.

Biden á­varpaði lands­sam­tök svartra lög­gæslu­stjóra fyrr í dag en hann sagði lög­reglu­menn í Was­hington DC hafa verið „úðaða, trampað á og mis­þyrmt“ af hvítum þjóð­ernis­sinnum og Trump stuðnings­mönnum, en Trump tókst að sann­færa stuðnings­menn sína að átt hefði verið við niður­stöður for­seta­kosninganna árið 2020.

„Lög­reglan var hetja þennan dag. Donald Trump skorti hug­rekkið til að bregðast við,“ sagði Biden.

Gagn­rýni for­setans kemur fram fjórum dögum eftir að nefnd sem rann­sakar á­rásina á þing­húsið greindi frá því að Trump hefið í­trekað hunsað ráð­leggingar ráð­gjafa sinna um að stöðva múginn, en sér­fræðingar segja að hann hefði getað birt á­varp þar sem hann for­dæmir á­rásina eða kallað fram þjóð­varðar­lið en Trump var seinn í báðu.

Fjöldi fólks réðst á þinghúsið í janúar 2021.
Fréttablaðið/Getty

Það var ekki fyrr en rúmum þremur klukku­stundum síðar þar sem Trump birti mynd­band þar sem hann sagði „Farið heim. Við elskum ykkur. Þið eruð sér­stök.“ Þegar mynd­bandið birtist var orðið ljóst að múgurinn myndi ekki ná fullum tökum á þing­húsinu.

Ekki er ljóst að svo stöddu hvort Trump verði sóttur til saka fyrir að­gerðar­leysi sitt en nefndin segist geta sýnt fram á að hann hafi brotið lög með því að hafa van­rækt skyldu sína sem for­seti að vernda Banda­ríkja­þing.

„Þú getur ekki verið hlynntur upp­reisninni og lög­reglunni. Þú getur ekki verið fylgjandi upp­reisn og lýð­ræði. Þú getur ekki verið hlynntur upp­reisn og Banda­ríkjunum,“ sagði Biden.