Joe Biden, Bandaríkjaforseti, segir forveri sinn í embætti, Donald Trump, hafa skort hugrekki og því hafi hann brugðist hægt við þegar reiður múgur réðst á þinghúsið í Bandaríkjunum þann 6. janúar 2021.
Biden ávarpaði landssamtök svartra löggæslustjóra fyrr í dag en hann sagði lögreglumenn í Washington DC hafa verið „úðaða, trampað á og misþyrmt“ af hvítum þjóðernissinnum og Trump stuðningsmönnum, en Trump tókst að sannfæra stuðningsmenn sína að átt hefði verið við niðurstöður forsetakosninganna árið 2020.
Brave women and men in uniform across America should never forget that the defeated former president of the United States watched January 6th happen and didn’t have the spine to act.
— President Biden (@POTUS) July 25, 2022
In my remarks today to @noblenatl, I made that clear: https://t.co/pQ8E4IcZR1 pic.twitter.com/uO60QO0Wrz
„Lögreglan var hetja þennan dag. Donald Trump skorti hugrekkið til að bregðast við,“ sagði Biden.
Gagnrýni forsetans kemur fram fjórum dögum eftir að nefnd sem rannsakar árásina á þinghúsið greindi frá því að Trump hefið ítrekað hunsað ráðleggingar ráðgjafa sinna um að stöðva múginn, en sérfræðingar segja að hann hefði getað birt ávarp þar sem hann fordæmir árásina eða kallað fram þjóðvarðarlið en Trump var seinn í báðu.

Það var ekki fyrr en rúmum þremur klukkustundum síðar þar sem Trump birti myndband þar sem hann sagði „Farið heim. Við elskum ykkur. Þið eruð sérstök.“ Þegar myndbandið birtist var orðið ljóst að múgurinn myndi ekki ná fullum tökum á þinghúsinu.
Ekki er ljóst að svo stöddu hvort Trump verði sóttur til saka fyrir aðgerðarleysi sitt en nefndin segist geta sýnt fram á að hann hafi brotið lög með því að hafa vanrækt skyldu sína sem forseti að vernda Bandaríkjaþing.
„Þú getur ekki verið hlynntur uppreisninni og lögreglunni. Þú getur ekki verið fylgjandi uppreisn og lýðræði. Þú getur ekki verið hlynntur uppreisn og Bandaríkjunum,“ sagði Biden.