Joe Biden, ný­kjörinn for­seti Banda­ríkjanna, er sagður vera búinn að á­kveða hverjir muni gegna stöðu utan­ríkis­ráð­herra og þjóðar­öryggis­ráð­gjafa þegar hann tekur við em­bætti þann 20. janúar 2021 en þetta hafa nokkrir af stærstu fjöl­miðlum vestan­hafs eftir heimildar­mönnum sem tengjast málinu.

Gert er ráð fyrir að Biden muni til­nefna Antony J. Blin­ken sem utan­ríkis­ráð­herra og Jake Sullivan sem þjóðar­öryggis­ráð­gjafa. Biden mun sjálfur til­kynna nokkra sem munu sitja í ríkis­stjórn hans á morgun en Donald Trump, sitjandi Banda­ríkja­for­seti, hefur ekki enn játað sig sigraðan og hefur ítrekað haldið því fram að kosningasvindl hafi átt sér stað. Þrátt fyrir að Trump hafi reynt ýmislegt til þess að reyna að fá úrslitum kosninganna breytt er verulega ólíklegt að það takist.

Hafa áður starfað með Biden

Að því er kemur fram í frétt New York Times eru Sullivan og Blin­ken helstu ráð­gjafar Bidens í utan­ríkis­málum en þeir störfuðu báðir með Biden þegar hann var vara­for­seti. Saman eiga þeir erfitt verk fyrir höndum til að styrkja tengslin við al­þjóða­stofnanir og banda­menn Banda­ríkjanna.

Blin­ken hóf störf hjá utan­ríkis­ráðu­neyti Banda­ríkjanna þegar Bill Clin­ton var for­seti og gegndi mikil­vægu hlut­verki í ríkis­stjórn Barack Obama og var meðal annars þjóðar­öryggis­ráð­gjafi Bidens frá árinu 2009 til 2013. Þá starfaði hann sem að­stoðar­þjóðar­öryggis­ráð­gjafi Obama frá 2013 til 2015 og síðan sem stað­gengill utan­ríkis­ráð­herra Banda­ríkjanna frá 2015 til 2017.

Sullivan tók við af Blin­ken sem þjóðar­öryggis­ráð­gjafi Bidens og gegndi því starfi í tæp­lega eitt og hálft ár en áður hafði hann verið yfir stefnu­mótum innan utan­ríkis­ráðu­neytisins frá árinu 2011. Þá hafði hann einnig starfað með Hillary Clin­ton þegar hún var utan­ríkis­ráð­herra.

Auk þeirra er gert ráð fyrir að Biden muni til­nefna Lindu Thomas-Green­fi­eld sem sendi­herra Banda­ríkjanna innan Sam­einuðu þjóðanna en það er talið lík­legt að em­bættið verði fært yfir þannig það sé innan ríkis­stjórnarinnar þannig Thomas-Green­fi­eld mun einnig sitja í þjóðar­öryggis­ráði Bidens.

Forseti Bandaríkjanna getur sjálfur skipað í embætti þjóðaröryggisráðgjafa en öldungadeild Bandaríkjaþings þarf að staðfesta skipun utanríkisráðherra og sendiherra Bandaríkjanna til Sameinuðu þjóðanna.