Donald Trump, sitjandi Bandaríkjaforseti, greindi frá því í gær að hann myndi binda enda á ferðabannið sem sett var á Evrópulönd og ákveðin lönd til að takmarka útbreiðslu COVID-19. Þetta kom fram í yfirlýsingu forsetans í gærkvöldi en Biden er sagður mótfallinn því að banninu verði aflétt.
Bannið nær til ferðalanga frá Evrópu og Brasilíu, sem ekki eru ríkisborgarar í Bandaríkjunum, en frá og með 26. janúar mun Sóttvarnamiðstöð Bandaríkjanna, CDC, gera kröfu um að allir þeir sem koma til Bandaríkjanna þurfi að sýna fram á neikvætt COVID-19 próf áður en þeir halda til landsins.
INBOX: President Trump has issued a proclamation lifting COVID-19 travel restrictions barring entry to the US of foreign nationals from the UK, Ireland, much of Europe, and Brazil effective January 26 at 12:01 am. pic.twitter.com/5DfsY2evPm
— Sara Cook (@saraecook) January 18, 2021
Í ljósi þessa sagði Trump að honum hafi verið ráðlagt af heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna, Alex Azar, að það væri ekki þörf á banninu eftir þann tíma.
„Ég er sammála ráðherranum að þetta sé besta leiðin til þess að vernda Bandaríkjamenn áfram fyrir COVID-19,“ sagði forsetinn en tók fram að þegar kemur að Kína og Íran væri bannið áfram í gildi, þar sem þau hafi verið ósamvinnuþýð.
Eins og staðan er í dag hafa rúmlega 24 milljón tilfelli smits verið staðfest í Bandaríkjunum og um 400 þúsund manns látist eftir að hafa smitast.
Ekki tíminn til að aflétta takmörkunum
Að því er kemur fram í frétt New York Times um málið segja aðstoðarmenn Joes Biden, verðandi Bandaríkjaforseta, að Biden sé verulega mótfallinn afléttingu bannsins og að hann muni viðhalda því eftir að hann tekur við embætti á morgun.
„Þar sem faraldurinn fer versnandi, og enn meira smitandi afbrigði veirunnar eru að dúkka upp víða um heim, þá er þetta ekki tíminn til þess að aflétta takmörkunum á ferðalögum,“ sagði verðandi fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, Jennifer Psaki, á Twitter í gær.
Þá sagði Psaki að það stæði til að herða takmarkanir á ferðalög enn frekar til að hamla útbreiðslu veirunnar.
Biden hefur síðastliðnar vikur gert ýmislegt til að undirbúa komu sína í Hvíta húsið og hafa viðbrögð við COVID-19 þar verið í forgangi en hann hefur verið mjög gagnrýninn í garð ríkisstjórnar Trumps vegna þeirra viðbragða við veirunni.
Þannig má gera ráð fyrir að það verði eitt af fyrstu verkefnum Bidens að snúa við tilmælum Trumps.
On the advice of our medical team, the Administration does not intend to lift these restrictions on 1/26. In fact, we plan to strengthen public health measures around international travel in order to further mitigate the spread of COVID-19.
— Jen Psaki (@jrpsaki) January 19, 2021