Kjörmenn allra 50 ríkja Bandaríkjanna og Washington, D.C., greiddu í gær atkvæði sín til forseta Bandaríkjanna og innsigluðu þar með sigur Joe Biden gegn Donald Trump, sitjandi Bandaríkjaforseta. Biden ávarpaði bandarísku þjóðina í nótt eftir að öll ríkin, nema Hawaii, höfðu greint frá niðurstöðunum.

„Enn einu sinni þá sigraði réttarreglan, stjórnarskráin okkar og vilji fólksins, í Bandaríkjunum,“ sagði Biden en hann vísaði þar meðal annars til tilrauna Trumps til að fá niðurstöðum kosninganna snúið og þeirrar staðreyndar að metþátttaka hafi verið í kosningunum í ár, og það í heimsfaraldri. „Það er kominn tími til að snúa við blaðinu.“

Skýr skilaboð

Þrátt fyrir allt neitar Trump enn að játa sig sigraðan og heldur því áfram fram að kosningasvindl hafi átt sér stað í forsetakosningunum sem áttu sér stað þann 3. nóvember síðastliðinn. Engu að síður er nánast öruggt að kjörtímabili Trumps muni ljúka 20. janúar næstkomandi, hvort sem hann viðurkennir það eða ekki.

„Það sem slær taktfast í hjarta Bandaríkjamanna er þetta; lýðræði. Rétturinn til að láta rödd sína heyrast, til að atkvæði þín verði talin, til að velja leiðtoga þessarar þjóðar, til að stjórna okkur sjálfum,“ sagði Biden og bætti við að niðurstöður kosninganna væru skýr skilaboð um vilja þjóðarinnar. „Lýðræðið sigraði í þessari baráttu fyrir sál Bandaríkjanna.“

Atkvæðin talin formlega í janúar

Alls greiddu 538 kjörmenn atkvæði í gær en hvert ríki er með jafn marga kjörmenn og þingmenn ríkisins. Öll ríkin, nema Maine og Nebraska, veita þeim sem eru með flest atkvæði í ríkinu alla sína kjörmenn. Nokkur ríki gera þó ekki þá kröfu að kjörmennirnir þurfi að kjósa frambjóðanda síns flokks, svokallaðir „faithless electors.“

Alls fékk Biden 306 kjörmenn og virðast því allir kjörmenn hafa kosið í samræmi við niðurstöður kosninganna í hverju ríki fyrir sig. Bandaríkjaþing mun síðan telja atkvæðin formlega 6. janúar næstkomandi en gera má ráð fyrir að Repúblikanar reyni að tefja þá talningu með því að mótmæla niðurstöðum ákveðna ríkja. Mjög ólíklegt er þó að það beri árangur.

Ræðu Bidens frá því í nótt má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.