„Ég get tilkynnt þjóðinni að Ameríka er komin á skrið á ný,“ sagði Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, í ræðu sinni fyrir báðum deildum Bandaríkjaþings í fyrrinótt. Þá voru liðnir hundrað dagar síðan Biden var svarinn í embættið.

Þar sagði Biden að hann stefndi að miklum breytingum á velferðar- og hagkerfi Bandaríkjanna, meðal annars með umbótum á samfélagsstoðum á borð við menntakerfið og barnabætur. Hann sagði faraldurinn hafa opinberað glufur í innviðum landsins og að besta leiðin til að efla hagvöxtinn væri að skattleggja þá ríku.

Þá sagði hann að Bandaríkin þyrftu að sanna fyrir heiminum að lýðræði virkaði ennþá svo landið væri samkeppnishæft við alræðisríki á borð við Kína.

„Það þekkir enginn innviði Bandaríkjaþings betur en Joe Biden, svo hann er ekki að setja þetta fram að gamni sínu,“ segir Kristján Guy Burgess alþjóðastjórnmálafræðingur um fyrirætlanir forsetans.

„Nú þarf að koma í ljós hvort hann fái stuðning meirihluta fyrir nákvæmlega þessum tillögum eða hvort þær muni breytast í meðferð þingsins. Biden ákvað að gefa engan afslátt og setja tillögurnar fram eins og hann taldi þær vera bestar.“

Enn hefur enginn Demókrati sett sig gegn tillögunum en Kristján segir það þó geta gerst.

Þegar Biden tók við embætti forseta Bandaríkjanna lofaði hann hundrað milljón bólusetningum þegar hann hefði starfað í hundrað daga. Það markmið náðist fyrir miðjan mars, og 21. apríl höfðu 200 milljón bólusetningar farið fram í Bandaríkjunum.

Í dag hefur rúmlega helmingur Bandaríkjamanna fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni, alls um 235 milljón skammtar.

Kristján segir Biden erfa versta bú sem nokkur Bandaríkjaforseti hefur tekið við.

„Biden erfir versta bú sem nokkur Bandaríkjaforseti hefur tekið við,“ segir Kristján og nefnir heimsfaraldur, kreppu og harðar innanríkisdeilur á borð við vantraust á lögreglu sem dæmi. „Það að finna leið til að snúa faraldrinum við er fyrsta stóra afrek hans sem forseta og nú taka við þessir viðspyrnupakkar til að koma efnahagnum aftur á réttan kjöl.“

Kristján segir Biden sækja ýmislegt í smiðju forvera sinna og hafa til að mynda kynnt sér vel hvernig Roosevelt tók á kreppunni á fjórða áratugnum. Þá segir Kristján Biden einnig hafa lært mikið af því að starfa sem varaforseti Obama sem hafi líka tekið við embætti í erfiðu ástandi.

„Það sem Biden lærði af tíma sínum sem varaforseti er að það þarf að vinna miklu hraðar,“ segir Kristján. Koma þurfi málunum sem fyrst af stað.

„Biden hefur til að mynda tekið ýmsar ákvarðanir í krafti síns embættis án þess að láta það fara í gegnum þingið fyrst. Hann stendur í dag frammi fyrir stórum verkefnum og það verður auðvitað ekki allt vinsælt sem hann ákveður að gera,“ segir Kristján.