Joe Biden Banda­ríkja­for­seti kallaði frétta­mann sjón­varps­stöðvarinnar Fox News „tíkar­son“ á blaða­manna­fundi í gær. At­vikið náðist á mynd­band og hefur vakið mikla at­hygli Inter­netinu.

For­setinn var staddur í Hvíta húsinu á fundi svo­kallaðs Sam­keppnis­þings (e. Competition Council) sem snýst um að breyta reglu­gerðum og fram­fylgja lögum til að hjálpa neyt­endum að takast á við hækkandi verð­lagningu.

Blaða­menn sem voru við­staddir fundinn kölluðu spurningar til for­setans eftir að hann hafði haldið tölu sína. Þar á meðal var Peter Doo­cy frá Fox News sem spurði Biden út í verð­bólgu, sem hefur ekki verið hærri í Banda­ríkjunum í 40 ár og hefur haft nokkur á­hrif á vin­sældir for­setans.

„Heldur þú að verð­bólga verði pólitískur drag­bítur í að­draganda mið­kjör­tíma­bils­kosninganna?“ spurði Doo­cy en var mætt með kald­hæðni af hálfu for­setans.

„Það er frá­bær kostur – meiri verð­bólga. Hversu heimskur tíkar­sonur,“ sagði Biden og hristi hausinn.

Eins og áður sagði náðust um­mæli for­setans á mynd­band sem hefur farið eins og eldur í sínu um sam­fé­lags­miðla.

Doo­cy hló síðar að at­vikinu í þætti á Fox News og sagði: „Það hefur enginn sann­reynt hann enn þá og sagt að þetta sé ekki satt.“

Að sögn AP News hafa tals­menn Hvíta hússins ekki enn viljað tjá sig um málið.