Joe Biden Bandaríkjaforseti hrósaði Andrew Cuomo, ríkisstjóra New York, fyrir vel unnin störf í kjölfar þess að Cuomo tilkynnti að hann hygðist segja af sér vegna ásakana um kynferðislega áreitni.

„Hann hefur staðið sig vel. Bæði þegar kemur að kosningum, innviða og fleira. Þess vegna er þetta svona sorglegt,“ sagði Biden við blaðamenn eftir að ákvörðun Cuomo lá fyrir í dag. Biden var einn þeirra sem hvatti Cu­omo til að segja af sér eftir að rann­sókn á vegum rík­is­sak­­sóknara leiddi í ljós að hann á­reitti fjölda kvenna kyn­ferðis­lega, þar á meðal starfs­fólk.

Vakti athygli að Biden ræddi ekkert við þolendur heldur að hann bæri virðingu fyrir ákvörðun Cu­omo. Fréttamaður CNN spurði Biden hvernig hann gæti hrósað Cu­omo fyrir vel unnin störf þegar honum er gefið að sök að hafa áreitt starfsfólk kynferðislega sagði Biden að hann væri einungis að tala um störf Cu­omo, ekki hegðun hans.

Talsmaður hrósaði þolendum

Jen Psaki, talsmaður Hvíta hússins, hrósaði öllum þeim ellefu sem hafa sakað Cu­omo um áreitni, sagði hann við blaðamenn að þar væru á ferðinni „hugrakkar konur“. Saksóknarar í Albany, Manhattan og í fleiri sýslum New York-ríkis eru nú með mál gegn Cu­omo á sínu borði.

Alríkissaksóknarar eru einnig með mál í rannsókn sem snúa að Cu­omo, snúa þau mál að viðbrögðum hans við Covid-19 faraldrinum en hann skipaði hjúkrunarheimilum í ríkinu að taka við smituðum einstaklingum. Í kjölfarið hafi hans stjórn reynt að hylma yfir dánartölur vegna faraldursins á hjúkrunarheimilum.