Joe Biden, Banda­ríkja­for­seti, lýsti því yfir í gær á blaða­manna­fundi að júní­mánuður yrði mánuður að­gerða og kynnti ýmsar að­gerðir sem hvetja eiga Banda­ríkja­menn til að næla sér í bólu­setningu gegn CO­VID-19 svo 70 prósent þjóðarinnar verði bólu­sett fyrir 4. júlí. Meðal þess er boð um frían bjór í sam­starfi við Budweiser.

Í fimm­tán mínútna á­varpi sínu í gær lagði Biden fram á­ætlun sína sem er í fimm liðum. Mun Kamala Har­ris, vara­for­seti Banda­ríkjanna, meðal annars ferðast um Banda­ríkin og dreifa upp­lýsingum um bólu­efni. Um 40 prósent Banda­ríkja­manna hafa nú fengið báðar sprautur en um 51 prósent eina sprautu.

„Það er rétt, nældu þér í sprautu og fáðu þér bjór. Frír bjór fyrir alla eldri en 21 árs til að fagna sjálf­stæði frá vírusnum,“ sagði Biden meðal annars. Anheu­ser-Busch, brugg­verk­smiðjan sem bruggar vin­sælasta bjór landsins, Budweiser, hefur heitið því að gefa frían bjór til lands­manna náist tak­markið um 70 prósenta bólu­setningu.

Forsetinn segir að náist takmarkið muni Bandaríkjamenn upplifa sumar frelsisins. Þá hyggjast yfir­völd grípa til ýmissa að­gerða til að auð­velda fólki að nálgast bólu­setningu. Apó­tek út um land allt verða opin í 24 tíma næst­komandi föstu­dag þar sem Banda­ríkja­menn geta orðið sér út um bólu­setningu. Þá hyggjast sum fyrir­tæki bjóða fría þjónustu til að auð­velda fólki að nálgast bólu­setningu, meðal annars Uber og Lyft sem munu ferja fólk frítt á bólu­setningar­staði.

Biden lagði á það á­herslu í á­varpi sínu að auð­velt væri fyrir alla lands­menn að nálgast sprautuna. „90 prósent af ykkur búa í 2,5 kíló­metra fjar­lægð frá bólu­setningar­stöð. Bólu­setningin er frí og á flestum stöðum getið þið ein­fald­lega gengið inn, án tímapantanna.“

Þá verður smáum og meðal­stórum fyrir­tækjum gert kleyft að gefa starfs­fólki launað frí til að nálgast sprautu, með skatta­í­vilnunum að sögn Biden. Auk þess hefur sér­stakt bólu­setningar­lottó verið kynnt í Ohio ríki og þá hefur Banda­ríkja­mönnum verið boðnir fríir miðar á hafna­bolta­leiki.